„Allir vinna að sama marki af heilum hug“

Veruleg fækkun slysa hefur orðið á starfsstöðvum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað að undanförnu og Hefur uppsjávarskipið Beitir NK verið slysalaus í þrjú ár.



Í ársbyrjun 2016 var Guðjón B. Magnússon ráðinn í starf öryggisstjóra. „Samkvæmt nýrri starfsmannastefnu fyrirtækisins verða öryggisnefndir starfandi á hverri starfsstöð og öryggisráð mun síðan hafa yfirumsjón með öryggismálunum og framkvæmd þeirrar öryggisstefnu sem mótuð hefur verið. Öryggisstjóri mun starfa með öryggisráðinu og verða öryggisnefndunum til halds og trausts. Auðvitað bera yfirmenn hverrar starfsstöðvar mikla ábyrgð í þessum efnum en einnig verður lagt allt kapp á að kynna öryggisreglur fyrir starfsmönnum og þar er nýliðafræðsla einkar mikilvæg,“ segir Guðjón.

Mikil áhersla hefur verið lögð á öryggismál hjá fyrirtækinu upp á síðkastið og er árangurinn greinilegur á öllum starfsstöðvum fyrirtækisins.

„Slysum hefur fækkað til muna og að sjálfsögðu er stefnt að því að árið 2017 verði slysalaust á öllum starfsstöðvunum. Í landvinnslunni hefur þróun slysatíðni verið í mjög rétta átt. Árið 2012 voru átján vinnuslys á þessum starfsstöðvum, þau voru þrettán á árinu 2014 en einungis fimm á árinu 2016. Sama er að segja um þróunina hjá skipum fyrirtækisins. Á árinu 2012 voru fjögur vinnuslys á skipunum, þau voru sjö á árinu 2014 en einungis þrjú á síðasta ári.“

Guðjón segir að í göngum frá Sjúkratryggingum Íslands sjáist að slysum um borð í skipum fari almennt fækkandi hérlendis, en á árabilinum 1987-2015 voru fæst vinnuslys sjómanna tilkynnt árið 2014, 201 talsins og næstfæst á árinu 2015, eða 219. Ekkert slys hefur átt sér stað í Beiti NK síðastliðin þrjú ár.


„Hér eru allir tilbúnir“

Guðjón segir að árangurinn sé starfsfólkinu sjálfu að þakka. „Ég hef bara verið hér í eitt ár en til dæmis hefur Beitir verið slysalaus í þrjú eins og fram hefur komið. Ég heimsótti þá um borð og kom til baka með bros á vör, þeir tóku sjálfir af skarið og unnu að þessum málum á sínum forsendum sem þeir hafa gert mjög vel, en það sama gildir um önnur skip í okkar röðum.

Það er gaman að vinna með starfsfólki Síldarvinnslunnar að þessum mikilvægu málum. Rausið í mér hefði lítið að segja ef það tæki ekki við því, en hér eru allir tilbúnir og þessi hugsunarháttur er kominn til að vera. Engu er til sparað innan fyrirtækisins, öryggismálin eru sett á oddinn og milljónum varið í að bæta það sem bæta þarf. Allir vinna að sama marki af heilum hug.“

Ljósmynd; Þorgeir Baldursson.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.