Aftur farið að landa fiski í Stöðvarfjarðarhöfn

Aftur er farið að landa fiski í Stöðvarfjarðarhöfn en hluti hafnarkantsins verður lokaður næstu daga vegna aðgerða við að ná togskipinu Drangi á land.

Jón Björn Hákonarson bæjarstjóri Fjarðabyggðar segir að enn sé ekki vitað hve mikið magn af olíu lak úr Drangi.

„Við erum ekki með stöðu á magni olíu sem lak út í Stöðvarfjarðarhöfn þar sem ekki er búið að ná að dæla úr bátnum olíunni sem er í tönkum hans til að áætla það sem upp á vantar,“ segir Jón Björn.

„Vel gekk samt að loka fyrir leka úr honum í gær og hreinsa upp frá honum. Olíulekinn hefur ekki bein áhrif á starfsemi hafnarinnar og við erum farinn að landa aftur fiski í Stöðvarfjarðarhöfn. Hluti hafnarkantsins er þó lokaður vegna aðgerða við björgun bátsins sem standa mun næstu daga.“

Fram kemur í máli Jóns Björns að öll áhersla hafi verið lögð á að ná utan um olíumengunina og það hafi gengið með ágætum.

„Allir þeir sem komu að verkinu stóðu sig með mikilli prýði, Landhelgisgæslan, slökkvilið, björgunarsveitir og starfsmenn sveitarfélagsins,“ segir Jón Björn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.