Afbrotunum fjölgar fljótt ef gengin skjóta rótum

outlaws_logo.jpg
Egilsstaðir eru næsti áfangastaður vélhjólagengja á Íslandi. Staðurinn er vel staðsettur gagnvart flutningaleiðum inn í landið. Lögreglan leggur allt kapp á að ekki takist að setja upp slíkan hóp þar.

„Ég tel það kappsmál okkar núna að leggja þunga í að koma í veg fyrir að undirhópur verði settur á laggirnar á Austfjörðum,“ segir Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. 

Áætlað er að um nítíu manns tengist vélhjólagengjum á borð við Hells Angels, Black Pistons (Outlaws) og SOD hérlendis. Fleiri gengi, eins og Banditos, eru sögð hafa áhuga á að hasla sér völl hérlendis. SOD er stuðningshópur Hells Angels á meðan tengsl eru milli Black Pistons og Bandidos. Í nýjasta tölublaði Austurgluggans er greint frá því að það sé Black Pistons sem hafi sýnt Egilsstöðum mestan áhuga.

Fjölbreytt brotastarfsemi

Gengin stunda skipulagða brotastarfsemi: dreifingu og sölu fíkniefna, rán, hótanir og ofbeldi. Veldi þeirra byggjast á svæðaskiptingum og þar sem deilur hafa sprottið um yfirráð yfir svæðum erlendis hefur komið til blóðugra átaka þar sem óbreyttir borgarar hafa verið fórnarlömbin. 

„Það fæst ekkert út úr svona hóp nema aukin brotastarfsemi af ýmsu tagi. Það kemur fljótt í ljós ef hópurinn fer af stað,“ segir Karl Steinar sem ítrekar að gengið hafi ekki enn komið sér fyrir á Egilsstöðum.

„Við höfum sterk rök“

Talið er að um þriðjungur þeirra sem tengjast gengjunum beint hérlendis séu annað hvort í gæsluvarðhaldi eða fangelsi fyrir afbrot á síðustu misserum. „Við höfum á síðasta ári verið markvisst að kortleggja og afla upplýsinga um starfsemi þessara vélhjólagengja,“ segir Karl Steinar.

„Þessar vísbendingar um áhuga á því að koma upp undirhópum á landsbyggðinni er komið frá því starfi okkar. Við myndum aldrei halda því fram að hlutirnir væru svona nema telja okkur hafa fyrir því sterk rök. Við höfum og munum veita alla þá aðstoð sem hægt er.“

Það sem heillar við Egilsstaði er staðsetningin gagnvart flutningsleiðum inn í landið. „Einkenni þessa hópa er að tryggja sér völd og yfirráð. Lega og staðsetning Egilsstaða, nállægt flugvelli og síðan ekki síst ferjunni eru atriði sem skipta máli.“

Glæpamenn en ekki vélhjólaáhugamenn

Það eru ekki endilega menn á mótorhjólum sem eiga að vekja grunsemdir manna. Uppistaðan í íslensku gengjunum eru krimmar sem hvorki eiga mótorhjól né hafa próf á þau.

„Þeir hópar sem um ræðir eru ekki endilega að horfa á vélhjólahópa sem fyrir eru á staðnum. Þeir gætu gert það ef samsetning þeirra væri þeim hagstæð, það er að segja ef meðlimir þeirra hefðu áhuga og vilja til samstarfs. Þeir væru þess vegna að leita eftir mönnum sem hingað til hefðu frekar verið þekktir fyrir einhverja brotastarfsemi, mis alvarlega.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.