Afar brýnt að endurnýja einbreiðar brýr á Austurlandi

„Ég hef tekið sterkt eftir að brúin yfir Sléttuá hefur látið óvenju mikið sjá á síðustu tvö til þrjú árin og mátti nú lítið við því enda komin vel til ára sinna,“ segir Þuríður Lilly  Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð.

Þuríður, ásamt kollegum sínum í bæjarráði sveitarfélagsins, lýsti fyrir skömmu yfir þungum áhyggjum af ástandi brúnna yfir Sléttuá í Reyðarfirði sem og yfir Stöðvará í Stöðvarfirði. Báðar brýr eru einbreiðar, komnar vel til ára sinna, báðar eru á Þjóðvegi 1 og á þeim verulegar þungatakmarkanir.

Hversu illa brúin yfir Sléttuá er farin má glögglega sjá á meðfylgjandi mynd sem tekin var fyrir rúmri viku síðan. Ekki aðeins er bundið slitlagið farið að gefa sig duglega við brúarendanna heldur og eru djúpar rásir eftir hjólför á brúnni sjálfri. Margir vegfarendur segja hana líka dúa undan þyngri bílum.

Fyrir utan alvarlega og vel þekkta hættu við einbreiðar brýr, sem meðal annars margir erlendir ferðamenn eru alls óvanir, segir Þuríður áhyggjur bæjarráðs einnig tengjast þeim miklu þungatakmörkunum sem á báðar brýr eru settar.

„Yfir þessar brýr og kannski sérstaklega brúna yfir Sléttuá fara töluvert miklir þungaflutningar bæði fyrir álverið hér og fiskvinnslufyrirtækin auk fleiri aðila. Við höfum sérstakar áhyggjur af því ef stórir kranar þurfa að fara leiðar sinnar að þá mega þeir alls ekki fara yfir heldur verða að þræða leið yfir ánna sjálfa. Flutningabílarnir hafa hingað til sloppið en það var til dæmis atvik í fyrra þar sem óhapp varð á Fáskrúðsfirði og krana þurfti til aðstoðar í flýti. Sá krani þurfti yfir Sléttuá með tilheyrandi töfum og hvað skal gera þegar og ef kranabíll festir sig einn daginn í ánni eins og sannarlega getur átt sér stað.“

Bæjarráð lét bóka fyrir skömmu að verði umræddar brýr fyrir frekara tjóni en þegar er orðið myndi það hafa geigvænlegar afleiðingar fyrir atvinnulífið á Austurlandi enda sé brúin yfir Sléttuá umferðarþyngsta einbreiða brú á Austurlandi. Var innviðaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannesson, hvattur til að bæta úr og fara í framkvæmdir áður en hættuástand skapast fyrir alvöru.

Að sögn Þuríðar, sem hitt hefur ráðherrann og rætt um vandamálið, tók hann undir mikilvægi þess að koma málum er varða Suðurfjarðarveg í betra horf.

Brúin yfir Sléttuá fyrir rúmri viku síðan. Stjórnvöld hafa haft það á dagskránni um margra ára skeið að útrýma einbreiðum brúm á Þjóðvegi 1 en lítið gerist í þeim málum hér austanlands. Mynd Þuríður Lilly

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.