Ætla að loka þjóðveginum um Berufjörð til að mótmæla frestun framkvæmda

Íbúar í Berufirði stefna að því að loka Hringveginum um fjörðinn eftir hádegi á sunnudag til að mótmæla því að horfið verði frá uppbygginu nýs vegar yfir fjörðinn. Sú ákvörðun hefur vakið upp hörð viðbrögð.


„Það eru allir sótbrjálaðir. Kosningabaráttan fjallaði mikið um þessa innviðauppbyggingu. Það átti að græja hana því það voru til svo miklir peningar. 72 dögum eftir að samgönguáætlun er samþykkt er allt svikið,“ segir Berglind Häsler, bóndi á Karlsstöðum í Berufirði.

Fyrir nokkru var boðað til íbúafundar á Djúpavogi milli klukkan 11 og 13 á sunnudag til að kynna sameiningarviðræður Djúpavogshrepps, Hornafjarðar og Skaftárhrepps. Til mótmælanna er boðað strax eftir þann fund.

„Berfirðingar og allir sem vilja sýna samstöðu í þessu máli mæta í Berufjörðinn upp úr klukkan eitt. Við ætlum að stöðva umferðina þar. Þetta er ákall til stjórnvalda um að endurskoða ákvörðunina og byrja framkvæmdir hið snarasta.“

Einu malarkaflarnir á Hringveginum

Á fjárlögum fyrir árið 2017 vantaði tíu milljarða króna til að standa undir samgönguáætlun sem var samþykkt áður en þingi var slitið um miðjan október í aðdraganda kosninga. Einu kaflarnir sem enn eru ómalbikaðir á Hringveginum eru á Austurlandi og spilar Berufjörðurinn þar stórt hlutverk.

Eftir margra ára deilur hyllti loks undir framkvæmdir. Vegurinn var á samgönguáætlun og allt tilbúið fyrir útboð. Í gærkvöldi tilkynnti hins vegar samgönguráðherra að vegurinn um Berufjörð væri meðal þeirra framkvæmda sem frestað yrði því ekki væri til nægt fjármagn.

Trúðum ekki að hætt yrði við enn einu sinni

Það hleypti illu blóði í heimafólk. „Við búum á 21. öld við Hringveginn en vegurinn er eins og í vanþróuðu ríki. Þetta er ekki einkamál Berfirðinga heldur landsmanna allra.

Fólkið hefur beðið eftir nýjum vegi í áratugi því sá sem er nú er handónýtur. Það er ekkert eftir af honum. Það er borið í hann og heflað og það virkar kannski í hálfan dag.

Það springa dekk á sumrin, bílar fara út af, við sendum börnin okkar í skóla á vegi sem flutningabílar keyra á fullu gasi alla dag. Bílarnir okkar eru illa farnir og drulluskítugir og við skemmum þá meira á hverjum degi. Ferðamenn stoppa og spyrja sig hvort þeir hafi tekið vitlausa beygju og trúa því ekki að þeir séu enn á þjóðvegi 1. Það stefnir í stórslys ef ekkert á að gera.

Við vorum slök og héldum að Vegagerðin væri bara á leiðinni. Framkvæmdin var komin það framarlega að við trúðum ekki að það yrði hætt við hana. Við treystum þingmönnum til að standa við loforðin.

Halda ráðamenn að við séum algjörir hálfvitar? Að við ætlum að láta þetta yfir okkur ganga? Þeir láta kjósa sig og fara síðan að gera eitthvað allt annað. Það er þeirra vinna að redda þessum pening. Það skulu þeir gera og það strax.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.