„Aðalmálið að halda jörðinni áfram í ábúð“

Sigíður Bragadóttir, bóndi á Síreksstöðum í Vopnafirði, segir það hafa verið erfiða ákvörðun að selja jörðina til breska auðkýfingsins Jim Ratcliffe. Dóttir hennar tekur fljótt við búskapnum sem byggist orðið á ferðamönnum.


„Við fluttum hingað 11. maí 1979. Það ár var mjög erfitt til búskapar, hafísinn kom að Norðurlandi og það var erfitt fyrir menn að heyja,“ segir Sigríður sem síðan hefur búið þar ásamt manni sínum, Halldór Georgssyni.

Ætt hans hefur búið þar lengi en Sigríður er úr Sandgerði og þar voru þau nýbúin að reisa sér hús þegar stefnan var tekin austur. Í viðtali við nýjasta tölublað Austurgluggans lýsir hún fyrstu búskaparárunum sem voru nýliðunum sérstaklega vegna óðaverðbólgu.

Þau hófu búskap með sauðfé en bættu fljótt við nautgripum. Árið 2006 var var nautunum lógað og við tóku þrjú ár eingöngu með sauðfé áður en farið var út í ferðamennskuna.

„Þegar við hættum 2006 stóðum við frammi fyrir því, út af reglugerðum og fleiru, að þurfa að byggja nýtt fjós. Það var enginn áhugi fyrir því þannig við seldum kvótann og fórum út í ferðaþjónustuna. Það var ekki útséð um að neinn tæki við af okkur í landbúnaðinum en þetta virtist eitthvað sem fólk gæti frekar hugsað sér.“

„Það var erfitt að selja“

Framundan er nýliðun á Síreksstöðum. Sigríður og Halldór ætla að hætta í lok árs og dóttir þeirra, sem nú býr á Hofi, tekur við. Sigríður og Halldór hafa keypt hús úti í þorpi en ferlið er ekki einfalt. „Mér finnst rosalega gott að vera hérna og á mjög erfitt með að fara. Það er hálfgert sorgarferli.“

Búið er að selja jörðina. Kaupandinn er Jim Ratcliffe, fimmti ríkasti maður Bretlands, sem á skömmum tíma hefur eignast fjölda jarða í Vopnafirði. „Það var erfitt að selja. Við erum að fullorðnast og stóðum frammi fyrir því annaðhvort að vera hérna með sama og engan búskap eða selja.

Það er útséð um að ungt fólk getur ekki keypt jarðir og það sem til þarf til að fara að búa. Við sem erum búin að byggja upp viljum líka fá eitthvað fyrir okkar snúð. Það er bara eðlilegur hlutur.

Dóttir okkar á helminginn af 250 kinda stofninum okkar og hafði áhuga á að búa, þó aðallega með ferðaþjónustuna. Til þess að það væri hægt þurftum við að selja. Við höfðum þennan möguleika og stukkum á hann.“

Töldum okkur ekki hafa neitt val

Sigríður segir að ekki hafi verið búið að auglýsa jörðina en þau verið búin að láta spyrjast út að þau hugsuðu sér til hreyfings. „Ég veit ekki hvað skal segja, já kannski,“ er svarið þegar hún er spurð hvort verðið hafi verið gott miðað við það sem gerist í jarðaviðskiptum á Íslandi. Aðalmálið hafi verið að halda jörðinni áfram í ábúð.

„Þessir menn vilja að það sé búið á jörðinni, þeir lögðu mikla áherslu á það. Íslenskir stóreignamenn sem kaupa jarðir loka bara veginum. Við upplifum það um allt land. Þannig er það ekki hér – að minnsta kosti ekki ennþá.

Það skipti öllu máli að þeir vildu halda búskap. Helst hefði maður viljað að krakkarnir hefðu getað keypt. Okkur hefði liðið best með það en stundum þarf maður að gera annað. Ég hefði ekki viljað selja ef ég hefði haft val. Við töldum okkur bara ekki hafa neitt val.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.