„Á ég að fara út og eiga ekki neitt?“

Íbúðareigandi á Stöðvarfirði segir sinnuleysi Íbúðalánasjóðs gagnvart viðhaldi hafa valdið það miklum skemmdum á íbúðinni að hún sé óíbúðarhæf. Eigandinn sér fram á að þurfa að skilja við skuldlausa íbúðina án þess að fá neitt fyrir hana.

„Ég fæ þau svör að þetta séu reglur, sjóðurinn lækki ásett verð á húsinu frekar en fara í viðhald. En hvað með mig? Ég á þetta líka,“ segir Lilja Jóhannsdóttir sem býr að Fjarðarbraut 48 á Stöðvarfirði í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Hún á 67 fermetra íbúð á neðri hæð hússins en Íbúðalánasjóður á efri hæðina og afganginn af neðri hæðinni, alls 160 fermetra að því er fram kemur í auglýsingu sjóðsins.

Lilja hefur búið á Stöðvarfirði í 30 ár, þar af 23 í þeirri íbúð sem hún er í nú. „Hér vil ég vera,“ segir hún.

Svo einföld er staðan ekki. Í þorpi sem telur aðeins 184 íbúa er einn þeirra að flytja því hann getur ekki lengur búið í húsinu sínu vegna sinnuleysis ríkisstofnunar.  „Ég er komin í þá stöðu núna að ég er á leiðinni út. Ég treysti mér ekki til að vera annan vetur hérna. Ég er að leita mér að húsnæði hér á Stöðvarfirði en það er lítið að hafa.“

Fyrst þarf að laga lekann

Ástæðan er afleitt ástand hússins. Helsta áhyggjuefnið er leki, annars vegar meðfram svölum á suðurhlið hússins, hins vegar úr þakinu. Svalirnar voru lagaðar í fyrra en Lilja segir það ekki hafa dugað.

„Þær halla að húsinu og lekinn frá þeim er búinn að skemma hjá mér anddyrið, baðherbergið og stofuna. Það var byggt utan um svalirnar en það er engin lausn, það pressast enn vatn niður með þeim. Ég get ekki farið í neinar framkvæmdir fyrr en allt er orðið þurrt.“

Að auki lekur þaki sem valdi skemmdum á parketi efri hæðarinnar og áframhaldandi skemmdum á neðri hæðinni. Þar eru sjáanlegar sprungur í lofti. Í sölulýsingu kemur fram að parket á efri hæðinni sé ónýtt, að þakið leki og þakjárn sé ónýtt. Lilja segist óttast að það geti fokið í hvassviðri.

Framburður Lilju á sér ennfremur stoð í tveggja ára gamalli skýrslu heilbrigðisfulltrúa. Þar segir að ekki verði hjá endurbótum komist, rætt hafi verið um að fjarlægja svalirnar og gera þurfti við þakið til að forða frekari leka. Í þetta þurfi að ganga áður en hægt sé að fara í aðrar viðgerðir.

Lilja hefur árum saman reynt að fá aðra eigendur hússins, sem undanfarin ár hefur verið Íbúðalánasjóður, til að sinna viðhaldi á því. Hún segist hafa gengið á starfsmenn sjóðsins í fjögur ár en gengið á vegg. „Þar vísa menn hver á annan, einn lofar að láta annan hringja en svo hringir hann aldrei. Ég get ekki farið í framkvæmdir meðan ég veit ekki hvað sjóðurinn ætlar að gera, við verðum að hjálpast að.“

Frestun á öllu

Lilja segist hafa byrjað að ræða við sjóðinn fyrir fjórum árum en alltaf lent á vegg. Daginn fyrir heimsókn Austurgluggans sagðist hún hafa fengið símtal frá starfsmanni sjóðsins sem bað hana um að meta sjálf og lista allt upp sem að húsinu væri. Hún líti ekki á það sem sitt verk. „Það er allt svona, það er frestun á öllu.“

Lóðin í kringum húsið er að mestu í órækt. „Ég reyni að snyrta í kringum mig en finnst engin ástæða til að hugsa um hitt. Ég hringdi tvisvar í fyrrahaust til að gera eitthvað, það var vel tekið í það en svo gerðist ekkert.“

Hún kveðst hafa boðið sjóðnum að kaupa íbúðina en fengið þau svör að það geri sjóðurinn ekki fyrr en eignir séu komnar á uppboð. „Til þess þyrfti ég að skuldsetja mig og gera mig gjaldþrota. Ég held ég fari frekar.“ Sporin eru þung þar sem Lilja á íbúðina skuldlaust. „Á ég að fara út og eiga ekki neitt?“

Sefur í eldhúsinu til að fá frið fyrir músunum

Lilja segist hafa barist við myglusvepp víða í húsinu og vegna hans geti eitt barnabarna hennar ekki heimsótt hana. „Ég verð að tjasla í þetta til að halda heilsu en hann þolir þetta ekki.“

Músagangur er hins vegar stærsta ástæðan fyrir því að Lilja er við það að flytja út. Hún sefur í eldhúsinu því þar eru steyptir veggir auk þess sem ísskápurinn malar þannig að hún heyrir ekki í músunum. „Þess vegna er ég hér og sef ágætlega,“ segir hún en viðurkennir að það sé erfitt að vakna upp og fara á fætur í eldhúsinu. Í verstu tilfellunum hefur hún sofið í bílnum inni í sveit. „Ég tek með mér góðar sængur og fer þangað til að fá frið. Þetta er engin lausn.“

Í lítilli kompu inn af svefnherberginu hefur Lilja komið fyrir músagildru. „Hér hef ég verið að veiða töluvert af þeim. Þær eru inni í veggjunum og undir gólfinu.“

Hún bendir á að klæðningin utan á húsinu sé í raun á lofti og þar komist mýsnar inn undir. Hún hafi reynt að fá Íbúðalánasjóð til að taka þátt í að laga klæðninguna síðasta haust en ekki orðið að ósk sinni. „Ásett verð var lækkað úr sex milljónum í 4,8 í vor þegar ég byrjaði að tala um mýsnar.“

Austurglugginn/Austurfrétt óskuðu í byrjun síðustu viku eftir viðbrögðum frá Íbúðalánasjóði við sögu Lilju. Svar þaðan hefur ekki enn borist.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.