Á eftir að ræða betur við RARIK um fjarvarmaveituna á Seyðisfirði

Sveitarstjóri Múlaþings segir að enn sé í gangi undirbúningsvinna áður en sveitarfélagið geti tekið við fjarvarmaveitukerfi RARIK á Seyðisfirði. Hann segir að meðgjöf þurfi að fylgja veitunni. RARIK hefur tilkynnt að það ætli að hætta rekstrinum í ár.

„Við erum í samtali, bæði Múlaþing og HEF veitur, við RARIK. Ég á von á að við finnum skynsamlega lausn,“ segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings.

RARIK tilkynnti í síðustu viku að það ætlaði að hætta rekstri fjarvarmaveitunnar fyrir áramót. RARIK hefur viljað hætta í nokkurn tíma. Árið 2017 gaf það út að hætti yrði árið 2019. Frá því var horfið eftir mótmæli og ósk þáverandi Seyðisfjarðarkaupstaðar um rýmri tíma til að bregðast við.

Greina kosti varmadælu


Fjarvarmaveitan nýtir skerðanlega raforku. Verð á henni hefur hækkað sem og framboð, en kynt hefur verið með olíu síðustu vikur. Af þeim sökum, sem og ástands dreifikerfisins sem lekur það mikið að um þriðjungur orkunnar tapast, vill RARIK hætta rekstrinum því hann standi ekki undir sér fjárhagslega lengur.

Um nokkurt skeið hefur verið unnið að því að skoða hvernig hægt sé að bregðast við stöðunni. Verkfræðistofan EFLA skilaði síðasta sumar skýrslu um mögulega framtíðarkosti, þar sem miðlæg varmadæla sem noti varma úr lofti til að hita vatn var talin besti kosturinn. Þar var gert ráð fyrri að nýta dreifikerfið, sem RARIK býðst nú til að gefa Múlaþingi. Í þeirri skýrslu er kostnaður við endurnýjun dreifikerfisins talinn vera um 600 milljónir króna, sem réttlæti sig með afskriftum á 20-30 árum.

Björn segir að undanfarna mánuði hafi verið unnið nánar með niðurstöður skýrslunnar til að hægt sé að halda samtalinu við RARIK áfram. „Við erum að greina niðurstöður skýrslunnar nánar. Við getum lítið sagt fyrr en þeirri vinnu er lokið. Þá erum við komin með forsendurnar til að setjast niður með RARIK og semja um lausn.“

Telja hægt að laga dreifikerfið


Hann segir RARIK bera ábyrgð, bæði á að tryggja húshitun á Seyðisfirði, en líka hvernig komið er. „Það verða að fylgja ákveðnir fjármunir þannig að hægt sé að koma dreifikerfinu í ásættanlegt horf. Það virkar en skortir viðhald,“ segir hann.

Aðspurður um hvort RARIK hafi ekki sinnt viðhaldinu sem skyldi segir Björn að það hafi að mati Múlaþings „ekki verið í lagi“ óháð ástæðunni. Það sé ekki eldra heldur en dreifikerfi hitaveitunnar á Egilsstöðum. Mat Múlaþings sé að hægt sé að gera við kerfið.

Hann óttast ekki að RARIK slökkvi á kerfinu þótt samningar dragist enn frekar. „Ég hef skynjað skilning á stöðunni og að það verði ekki rokið frá. Við horfum til þess að HEF taki við þessum rekstri og það getur vel verið að það gerist um næstu áramót.“

Björn segir næst á dagskrá vera fund með með Orkustofnun um mögulegar styrkveitingar til fjarvarmaveitu. Nánari greining á hitunarkostum út frá skýrslu EFLU verði síðan að liggja fyrir áður en sumarfrí byrja. Vonast sé til að viðræður við RARIK haldi áfram nú í vor. „Ég hef trú á að við náum ásættanlegri niðurstöðu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.