„Ef hægt er hafa atvinnu af skógrækt í Svíþjóð og Finnlandi á það líka að vera hægt hér“

larus heidarsson droplaugarstodumSkógræktarfræðingur segir framtíðina bjarta í íslenskri skógrækt. Menn verði þó að vera tilbúnir að vera þolinmóðir því tíma tekur að rækta upp nytjaskóga. Þeir sem stundi það hugsjónastarf að gróðursetja fái sjaldnast að njóta arðsins af erfiðinu.

Þetta kom fram í máli Lárusar Heiðarssonar, skógræktarfræðings, í erindi hans á málþingi sem samtökin Landsbyggðin lifi stóðu fyrir á Egilsstöðum síðastliðinn sunnudag.

„Arðurinn af ræktuninni verður til við endurnýjun skógarins,“ sagði Lárus. Með þeim orðum vísaði hann til þess að nýtanlegur efniviður félli til þegar skógarnir eru grisjaðir. Slíkt þarf að gera 1-4 sinnum á æviskeiði hvers nytjaskógar. Lakari tré eru þá höggvin til að þau sterkari geti vaxið enn frekar.

Efniviðurinn úr fyrstu grisjun fer yfirleitt í kurl en verði síðar nýtanlegur í borð og planka. „Tekjur af skóginum haldast í hendur við aldur hans.“

Lárus segir að íslenskir skógar séu nú farnir að þroskast, ekki sé bara verið að gróðursetja heldur líka grisja. Timburkaupendum með misjafnar þarfir fjölgar. Því þarf að gera framleiðsluáætlanir fram í tímann.

Skógrækt er hugsjónastarf

Áætlað hefur verið að rúmlega 80 ársverk séu við skógrækt um allt land og samningar hafa verið gerðir við landeigendur um stórfellda gróðursetningu á næstu áratugum. Það tekur hins vegar 20-120 ár að rækta nytjaskóg.

„Af þessum sökum má segja að skógrækt sé að einhverju leiti hugsjónastarf þeirra sem gróðursetja skógin því í langri ræktunarlotu njóta þeir ekki arðsins af ræktuninni, þeirra laun eru í mörgum tilfellum ánægjustundirnar í skóginum.“

Lárus, sem er menntaður í Finnlandi, segir Íslendinga ekki hafa síðri tækifæri til að hafa atvinnu af sinni skógrækt en grannþjóðirnar.

„Ef við berum okkur saman við Svíþjóð og Finnland þá er vöxtur þeirra trjátegunda sem við notum í okkar skógrækt ekki lakari en þeirra tegunda sem standa undir skógariðnaði í þeim löndum. Þannig að ef að hægt er að stunda skógariðnað þar með góðum árangri þá er ekkert því til fyrirstöðu að það sama sé hægt hér á landi.“

Mikil eftirspurn frá Grundartanga

Í dag fer efniviður úr íslenskum skógum fyrst og fremst í kurl og girðingastaura. Mikil eftirspurn hefur verið eftir viðarkurli í framleiðslu á kísiljárni í járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga. Árleg eftirspurn sé rúmir 23.000 rúmmetrar af ókurluðu efni. Af því geti íslensk skógrækt aðeins skapað hluta. Í tengslum við slík viðskipt hafa samt orðið til sex ársverk í skógarhöggi. Áform um kísilmálmverksmiðju við Húsavík auki enn frekar spurnina eftir viðarkurlinu.

Lárus telur að ef fyrir tuttugu árum hefðu verið gróðursettir nógu öflugir skógar til að sinna kurleftirspurninni frá Grundartanga væri árlegur hagnaður af framleiðslunni 95 milljónir króna.

Hann nefndi einnig möguleika í skógrækt og bindingu kolefnis. Skógarbændur geti selt bindingu í þeirra skógum til þeirra sem losi gróðurhúsalofttegundir umfram kvóta. Í dag deila þó skógarbændur og ríkið um hver eigi bindinguna.

Minni gróðursetning leiðir síðar til niðursveiflu

Lárus varaði því við niðurskurði sem orðið hefur í skógrækt síðustu ár. „Eftir 2008 hefur árlegur fjöldi gróðursettra plantna minnkað um helming. Það á eftir að leiða til niðursveiflu í greininni eftir 25 til 35 ár og stendur í vegi fyrir því að úrvinnslu iðnaður framtíðarinnar geti stækkað og þróast eðlilega.

Niðurskurðurinn bitnar harðast á landsbyggðinni og svæðum þar sem atvinnulíf er þegar einhæft. Ef við ætlum að fá skógarafurðir í framtíðinni þá verðum við að hugsa fyrir því núna.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.