Útskrift í VA: Þetta er tíminn til að prófa allt sem mann langar

hronn hilmarsdottir web willgeirÁ sama tíma og nýstúdentar kveðja skólann sinn með söknuði opnast þeim ný og fjölmörg tækifæri sem erfitt er að velja á milli. Óþægilegt getur verið að gera mistök en stundum leiða þau menn á réttar brautir.

„Þetta er tíminn til þess að prófa allt sem manni langar, tíminn til að gera mistök og læra af þeim. Byrja á einhverju sem maður hélt að væri algjörlega málið en komast svo að því á miðri leið að það er alveg út í hött.

Þetta er tíminn til að skipta um skoðun og skipta svo aftur, því að ekkert er varanlegt,“ sagði Hrönn Hilmarsdóttir sem flutti ávarp nýstúdenta við útskrift Verkmenntaskóla Austurlands fyrir skemmstu.

Þar rakti hún dæmi um hvernig menn standa sífellt frammi fyrir ákvarðanatöku. Menn veiti ekki sömu svörin nú og þegar þeir voru fimm eða tíu ára um hvað þeir ætluðu að verða.

„Þegar við erum spurð í dag vill fólk fá alvöru svar, en núna er ekki eins auðvelt að svara. Mörg okkar hafa þó nú þegar fundið þetta svar. En fyrir þá sem hafa ekki gert það þá er þetta tíminn til þess að komast að því.“

Til að komast að svarinu verði menn að prófa sig áfram og ekki gefast upp þótt menn reki sig á.

„Þannig að ég segi, gerum eins mörg mistök og við getum, með því munum við næst þegar að við erum spurð, vita svarið.

Þær ákvarðanir sem við tökum í lífinu, hvort sem þær þóttu slæmar eða góðar á þeim tíma, voru allar teknar af ástæðu. Þó að við höfum haft um margt að velja og ekki alltaf fundist við vera að velja rétt. Allar ákvarðanir sem við tökum tengjast á einhvern hátt, það er bara ekki hægt að sjá það fyrirfram.“

Ein af þeim ákvörðunum sem Hrönn hefur þurft að taka var hvar hún vildi fara í framhaldsskóla. Hún íhugaði að fara frá Norðfirði og víkka sjóndeildarhringinn en valdi byrja í heimaskólanum og sjá svo til. Eftir því sér hún ekki.

„Þegar við lítum til baka þá sjáum við að þær komu okkur á þann stað sem við erum á í dag og eins og fram hefur komið þá get ég sagt fyrir mína hönd, að ég er mjög ánægð með þær ákvarðanir sem ég tók, því að í dag vil ég hvergi annarsstaðar vera í lífinu.“

Mynd: William Geir Þorsteinsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.