Hallormsstaðarskóli: Það stendur ekki til að leggja skólann niður

hallormsstadarskoli mai13Samningur er í gildi milli Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps um rekstur Hallormsstaðarskóla til ársins 2020. Því stendur ekki til að leggja skólann niður. Oddviti Fljótsdalshrepps segir þá vinnu sem sveitarfélögin eru farin af stað með um framtíð skólans miða að því að efla hann til framtíðar.

„Það er ekki á dagskránni næstu árin en í ljósi spár um nemendaþróun næstu ára í skólahverfinu hefur verið settur af stað starfshópur sem ætlað er að greina stöðu, framtíðarhorfur og valkosti varðandi skólastarfið. Verið er að horfa til þess hvernig skólastarf verði styrkt og Hallormsstaðaskóli efldur til framtíðar,“ segir Gunnþórunn Ingólfsdóttir, oddviti Fljótsdalshrepps.

Austurfrétt greindi í vikunni frá því að forsvarsmenn sveitarfélaganna tveggja sem standa að skólanum hefðu hafið viðræður um framtíð hans. Ástæðan er að útlit er fyrir að nemendum fækki nokkuð á næstu árum.

„Við erum að velta fyrir okkur hvernig við bregðumst við stöðunni og spánni. Það hafa orðið breytingar á búsetu fólks og nýliðunin er lítil. Til dæmis var ekkert leikskólabarn úr Fljótsdal í leikskólanum á síðasta ári.

Viljum ekki skerða búsetukosti í sveitinni

Lengst af stóðu Vallahreppur, Skriðdalur og Fljótsdalur saman að skólanum. Tveir fyrrnefndu hrepparnir sameinuðust Austur-Héraði og síðan Fljótsdalshéraði sem tók við ábyrgðinni. Gunnþórunn segir skóla sem þennan mikilvægan fyrir búsetu í dreifbýli.

„Við viljum ekki skerða búsetukosti í sveitinni með því að foreldrar leik-og grunnskólabarna þurfi að sækja þá þjónustu um langan veg. Það er samningur um rekstur skólans til 2020 og því stendur ekki til að leggja skólann niður en nemendafæð gæti vissulega ógnað skólastarfinu verði þar ekki breyting á.“

Tækifæri til að þróa skólastarfið áfram

Gunnþórunn segir skólann hafa haft gott orð á sér og nemendum þaðan hafa vegnað vel í framhaldsnámi, ýmsu félagsstarfi og menningu.

„Nemendahópurinn er lítill en mjög fjölbreyttur og það reynir á þá sem að skólanum koma að mæta þörfum allra, eins og skóli án aðgreiningar krefst og samkennsla árganga er viðhöfð. Umhverfi skólans er einstakt og býður upp á ýmsa möguleika á að þróa gott skólastarf áfram, hvort sem það verður á óbreyttan hátt eða með breyttri skólastefnu.“

Á opnum fundi um daginn kom fram að kostnaður við skólann sé 120 milljónir á ári. Sveitarfélögin taka jafnan þátt í rekstrinum.

„Hluti af þessum kostnaði er innri leiga og því fer þetta ekki allt úr sjóðum sveitarfélaganna,“ útskýrir Gunnþórunn. „Fljótsdalshreppur borgar um 42 milljónir á ári til reksturs. Þar fyrir utan er kostnaður við skólaakstur, viðhald mannvirkja og þess háttar.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.