„Það umhverfi sem er skipulagt fyrir börn er gott fyrir alla“

Katrín KarlsdóttirNauðsynlegt er að raddir ungmenna fái að heyrast og að hlustað sé á þær þegar skipulag þéttbýlis er mótað. Það kosti vinnu en borgi sig þar sem þau séu fólkið sem takið við stöðunum.

Þetta kom fram í máli Katrínar Karlsdóttur, M.Sc. í skipulagsverkfræði og umhverfissálarfræði á ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði sem Ungmennafélag Íslands hélt á Egilsstöðum fyrir skemmstu.

„Menn eru að hugsa fram í tímann þegar þeir móta skipulag og þess vegna verðum við að leggja mikla vinnu í að gera okkar besta,“ sagði Katrín.

Til að það gangi eftir þurfa raddir ólíkra hópa að heyrast og ungmennin séu þar mikilvægur hópur. „Það eru oft arkitektar og sérfræðingar sem vinna skipulagið en þeir tala ekki endilega við unglingana sem eru oft meira út í umhverfinu.

Börnin vita hvaða leið er vinsæl í skólann og það þarf ekki að vera gönguleiðin sem byggð var fyrir tuttugu árum.“

Í lögum sé þess krafist að skipulag sé kynnt með fullnægjandi hætti en spurning er hvaða skilningur sé lagður í orðin. „Er það gert þannig að unga fólkið vilji koma og segja eitthvað? Það þarf að mæta unga fólkinu á miðri leið og til þess þarf að vita hvað þau vita.

Það verður líka að undirbúa þau. Það er ekki hægt að ætlast til þess að krakkarnir séu orðnir fullmótaðir í rökræðum átján ára gamlir.“

Ýmsar leiðir séu færar til að kynnast sjónarhorni barnanna, að fara með þeim í ferðir, láta þau taka myndir, teikna og tala við þau. Sjálf vann Katrín verkefni um hverfi í Hammarby í Svíþjóð sem hannað var fyrir fimmtíu ára og eldri.

Fjölskyldur keyptu hins vegar íbúðir en engin leiksvæði voru til staðar. Katrín fór í gönguferðir með börnunum um hverfið þeirra og fékk að sjá hvar þau léku sér.

Hún nefndi einnig að sænska vegagerðin sé með sérþjálfað starfsfólk í að meta áhrif framkvæmda á börn. „Það umhverfi sem er skipulagt fyrir börn er gott fyrir alla.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.