Við verðum að sinna ferðaþjónustunni af meiri fagmennsku ef við ætlum að hafa hana að atvinnu

arny bergsdottir austurbru apr12Ætli Austfirðingar að hafa ferðaþjónustu að atvinnu verða þeir líka að nálgast hana þannig en ekki sem aukabúgrein eða áhugamál. Það þýðir að fjölbreyttari þjónusta verður að vera í boði allt árið. 
„Ef við ætlum að vera í þessum geira verðum við að vinna af meiri fagmennsku og standa við það sem við segjum,“ segir Árný Bergsdóttir, fulltrúi markaðsmála hjá Austurbrú.

„Menn koma ekkert aftur þegar þeir hafa ítrekað komið að lokuðum dyrum og þeir segja frá því að þeir hafi komið að lokuðum dyrum.

Ef við viljum hafa opið allt árið verðum við að kyngja þeim fórnarkostnaði að fá bara tvo einn daginn en tuttugu þann næsta. Það er ekki bannað að loka en það þarf að vera á hreinu hvar er opið og hvar lokað.“

Hún segir vaxandi áhuga fyrir Austurlandi. Sumarið sé orðið mjög gott en efla þurfi ferðamennskuna á jaðartímum.

„Hvað viljum við gera?“ spurði hún á fundi ferðaþjónustuaðila á Hallormsstað fyrir skemmstu. „Viljum við bara vera á fullri ferð í þrjá mánuði?“

Framboð á vetrarferðum og ýmissi menningu er óðum að aukast. Boðið er upp á jeppaferðir að vetrum og í Sláturhúsinu á Egilsstöðum verða textaðar íslenskar kvikmyndir á hverjum degi í sumar.

Austurför er meðal þeirra fyrirtækja sem komið hafa að markaðssetningu Austurlands á öðrum árstímum en sumrinu einu. Magnfríður Ólöf Pétursdóttir verkefnastjóri, segir mikla vinnu hafa verið unna í vöruþróun hjá fyrirtækinu.

„Það vantar meira af áhugaverðum, tilbúnum vörum. Hér á aldrei að vera skortur á afþreyingu,“ segir Magnfríður en áhersla Austurfarar er að selja ferðir á svæðinu. „Við viljum að menn geri það sem þeir eru bestir í.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.