Alla Borgþórs: Áhyggjuefni þegar samstarfið heldur ekki þegar á reynir

Aðalheiður BorgþórsdóttirVandséð er að Austurland beri fjórar skemmtiferðaskipahafnir miðað við þá ásókn sem er í dag. Uppbygging innviða líður fyrir það ef skipin dreifast of víða um svæðið. Menn hafa sammælst um ákveðnar hafnir á samráðsvettvangi austfirskra sveitarfélaga en það virðist ekki halda þegar á reynir.

Þetta kom fram í máli Aðalheiðar Borgþórsdóttir, ferða- og menningarfulltrúa Seyðisfjarðar á málþingi austfirskra ferðaþjónustuaðilar sem haldið var á Hallormsstað fyrir skemmstu.

„Það er áhyggjuefni þegar samstarfið sem menn hafa sammælst um heldur ekki þegar á reynir. Of oft hafa samþykktir Sambands sveitarfélaga á Austurlandi verið hundsaðar.“

Aðalheiður vísaði þar til samþykktar frá aðalfundi SSA árið 2009 um fjögurra ára samgönguáætlun. Það hafi verið samþykkt að leggja áherslu á uppbyggingu við Mjóeyrarhöfn fragtflutninga, eflingu flugvallarins á Egilsstöðum og ferjuhöfn á Seyðisfirði.

Höfn og Fjarðabyggð taka af Djúpavogi og Seyðisfirði

Í dag er að auki tekið við skemmtiferðaskipum á Eskifirði, Djúpavogi og Höfn. „Staðreyndin er að markaðurinn ber það ekki eins og staðan er í dag.“

Aðalheiður sagði Höfn og Fjarðabyggð taka af markaðnum sem Seyðisfjörður og Djúpivogur hefðu sótt inn á. Það væri gremjulegt fyrir Seyðfirðinga sem hafi unnið að markvissri uppbyggingu í innviðum, bæði með þátttöku í Cruise Iceland samtökunum og uppbyggingu á innviðum.

Höfn og Djúpivogur voru í samstarfi um móttöku skemmtiferðaskipa en upp úr því slitnaði fyrir skemmstu. Djúpavogsbúar ætla að halda áfram að taka á móti skemmtiferðaskipum og von er á tveimur þangað í sumar.

Restin berst um að verða fjórða höfnin

Aðalheiður útskýrði ferðir þeirra skemmtiferðaskipa sem til Íslands koma. Flest stoppa í tveimur höfnum á leið í kringum landið. Síðasta sumar komu 100 skip til Reykjavíkur, 70 til Akureyrar og 40 til Ísafjarðar.

„Restin verður að bítast um að vera fjórða höfnin og um það er mikill slagur.“

Sautján skip komu til Seyðisfjarðar í fyrrasumar en von er á tíu í ár. Árið 2014 verða þau fjögur og Aðalheiður sagði hreint út: „Fjarðabyggðarhafnir eru að taka frá okkur.“

Aðalheiður hélt því fram að ferðaþjónustan á Austurlandi í heild tapaði á samkeppni hafnanna.

„Uppbygging innviða líður fyrir að skipin dreifast of víða. Enginn þessara hafna getur tekið við stærstu skipunum sem taka 2500 manns. Með sameiginlegu átaki væri hægt að byggja upp slíka þjónustu en ef niðurgreiðslur eða ívilnanir til skipafyrirtækja fara að ráða för skekkir það samkeppnina.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.