Raforkuafhending skert vegna lélegs vatnabúskapar

landsnet mynd webLandsnet hefur þurft að skerða afhendingu rafmagns til nærri allra kaupenda svokallaðrar skerðanlegrar orku á Austurlandi síðustu daga og útlit er fyrir að það haldi áfram næstu vikur. Ástæðan er lélegur vatnabúskapur stærstu vatnsaflsvirkjananna á Austur- og Norðurlandi og takmörkuð flutningsgeta Byggðalínu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsneti. Áfram er búist við lélegum vatnabúskap þar sem ekki er útlit fyrir leysingar og snjóbráðnun að nokkru marki á næstunni.

Rafhitaveitur og iðnfyrirtæki eru stærstu notendur skerðanlegs rafmagns. Á Austurlandi hafa fiskiðjuver verið rafvædd síðustu mánuði og bitnar þessi skerðing á þeim. Þá er útlit fyrir að Alcoa Fjarðaál þurfi að draga úr álframleiðslu tímabundið.

„Frá aðfaranótt mánudags hefur samanlögð aflskerðing á Norður- og Austurlandi verið allt að 60 MW, mestmegnis á Austurlandi, en það er u.þ.b. þriðjungur af heildaraflþörf dreifiveitna á þessum svæðum.

Fyrirséð er að raforkunotkun fiskvinnslufyrirtækja muni aukast enn frekar til lengri tíma litið en erfitt verður á næstu árum að anna þeirri notkun á mestu álagstímum og/eða þegar flytja þarf mikið rafmagns milli landshluta,“ segir í tilkynningu Landsnets.

Þar segir enn fremur að til að anna afhendingu forgangsorku sé flutningsgeta Byggðalínunnar nýtt til fulls. „Vegna mjög takmarkaðrar flutningsgetu Byggðalínunnar er hins vegar lítið svigrúm til að bregðast við með umfangsmiklum raforkuflutningum milli landshluta þótt orkan sé vissulega til staðar.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.