Úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald: Rannsókn málsins gengur vel

manndrap domari 07052013Karlmaður á þrítugsaldri var í kvöld úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald í tengslum við rannsókn á láti karlmanns á sjötugsaldri sem talið er hafa borið að með saknæmum hætti. Yfirlögregluþjónn segir rannsóknina ganga vel.

Fulltrúi sýslumanns fór fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald en dómari úrskurðaði manninn í tveggja vikna varðhald á grundvelli almanna- og rannsóknarhagsmuna.

Jónas Wilhelmsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Eskifirði, segir rannsóknina ganga vel en verst annarra frétta af málinu.
Þannig vildi hann ekki svara því hvort játning lægi fyrir í málinu.

„Staðan er góð. Rannsóknin gengur vel,“ sagði Jónas. Í samtali við Austurfrétt í kvöld sagði hann að mikið af sönnunargögnum lægju fyrir en eftir væri að flokka þau og fara yfir. Þá hefði ekki verið tekin ákvörðun um hvar hinn grunaði yrði vistaður í gæsluvarðhaldinu.

Neyðarlínunni var tilkynnt um málið um klukkan átta í morgun. Hinn grunaði var handtekinn skömmu eftir það. Lögregla hefur ekki viljað svara því á grundvelli hvaða upplýsinga maðurinn var handtekkinn svo skömmu eftir að hún kom á vettvang.

Mennirnir tveir bjuggu báðir í fjölbýlishúsinu Blómvangi 2 á Egilsstöðum. Vettvangsrannsókn hefur staðið yfir í allan dag og verið rætt við vitni.

Hinn grunaði kom fyrir dómara að lokinni fyrstu yfirheyrslu klukkan hálf ellefu í kvöld í fylgd með verjanda. Hann var leiddur út úr dómssal kortéri síðar. Úrskurður dómara lá fyrir rétt fyrir klukkan ellefu í kvöld.

Samkvæmt heimildum Austurfréttar var ungi maðurinn nýlega fluttur í Egilsstaði. Íbúar í blokkinni hafa sagt hann hafa verið í annarlegu ástandi í gærkvöldi, barið að dyrum og beðið um bjór og sígraettur. Lögreglan hafði afskipti af honum um miðnætti síðustu nótt. Hann var rólegur þegar hún ræddi við hann þá.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.