Hafið ræður: Gamlar bryggjur farnar á Eskifirði og óttast um sjóhúsin

Tvær gamlar bryggjur eru foknar á haf út eftir óveður næturinnar og óttast er um afdrif sjóhúsanna sem þykja aðalsmerki bæjarins. Við Mjóeyri hefur sjórinn étið þrjá metra af eyrinni.


„Það eru tvær sjóhúsabryggjur farnar í utanverðum miðbænum og því miður eru þau hús að fara," segir Þórlindur Magnússon, björgunarsveitarmaður á Eskifirði.

Eskfirðingar hafa undanfarin ár reynt að byggja upp sjóhúsin og varðveita. Skemmdir hafa einnig orðið á Randúlfssjóhúsi, þar sem rekinn er veitingastaður og safn. Gólfið hefur gengið upp að hluta í húsinu sem byggt var árið 1895.

„Þetta er ekkert sem við getum stjórnað. Hafið ræður en sjávarstaðan er lækkandi svo vonandi vinnur það með okkur."

Hann segir búið að ná tökum á ástandinu í smábátahöfninni þar sem hluti flotbryggjunnar flaut upp af stöplum sínum í nótt. Björgunarsveitin var einnig kölluð út til að hefta þakplötur og klæðningar á húsum og í bræðslu Eskju sprakk upp hurð.

Einna verst er ástandið á Mjóeyri þar sem sjórinn hefur tekið eina þrjá metra af austanverðri eyrinni. „Ástandið er hræðilegt. Það er allt á floti alls staðar og sjórinn gengur yfir alla eyrina," segir Berglind Ingvarsdóttir sem þar býr og rekur ferðaþjónustu með manni sínum, Sævari Guðjónssyni.

„Þetta er eitthvað sem 45 ára gamall maður hefur ekki séð. Það er ekki hægt að lýsa því þegar óbrotin alda kemur upp að húsinu," segir hann.

Slökkviliðið var þar við að dæla upp úr kjallaranum en þess bíður annað útkall inni í bæ þar sem kjallari hefur fyllst af vatni.

Til stendur að reyna að moka grjóti fyrir eyrina þegar fjarar til að verja þau mannvirki sem þar eru.

Lögreglan beinir því til Austfirðinga, einkum Eskfirðinga, að vera ekki á ferðinni. Allir skólar í Fjarðabyggð eru lokaðir til hádegis.

Útleysing varð á Norðfjarðarlínu um klukkan hálf níu. Hún var sett strax inn aftur og rafmagnstruflunin því skammvinn.



 

Sad to see that the old little docks in Eskifjörður have been swept away by the storm, they have always been my favourite, over 100 years old.

Posted by Selma Hreggviðsdóttir on Wednesday, 30 December 2015


 

Báðar bryggjurnar farnar og komin göt a innra húsið og sjórinn gengur inn í það og veiðarfæri langt upp a götu

Posted by Einar Birgir Kristjansson on Tuesday, 29 December 2015


 

strandgatan við sjohusin

Posted by Einar Birgir Kristjansson on Tuesday, 29 December 2015


Untitled from Benedikt Jonsson on Vimeo.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.