Ræsi hafa ekki undan í vatnselgnum

Vattarnesvegur út með sunnanverðum Reyðarfirði er í sundur vegna vatnavaxta og hefur verið lokað. Starfsmenn Vegagerðarinnar reyna að ryðja frá ræsum til að forða frekari skemmdum á vegakerfinu.


„Vatnsveðrið er að fara illa með vegina og það er ekki útséð með hversu illa það gerir það," segir Ari Guðmundsson verkstjóri hjá Vegagerðinni á Reyðarfirði.

Mikil úrkoma, hvassviðri og hlýindi hafa ríkt eystra síðan um hádegi í gær sem leitt hefur til mikillar hláku með tilheyrandi vatnavöxtum.

Ari segir ræsi víða hafa stíflast eða þau hafi hreinlega ekki undan vatnselgnum.

Á Vattarnesvegi bilaði ræsi og fór í burtu þannig að vegurinn er í sundur og þar með ófær. Víða flæðir yfir vegi svo sem á Hringveginum í Breiðdal, í botni Reyðarfjarðar, Fáskrúðsfjaraðar og á Fagradal.

Tæki frá Vegagerðinni eru að störfum á Fagradal, fyrir botni Reyðarfjarðar og Oddsskarði til að reyna að grafa frá ræsum og hindra frekari skemmdir.

Vegagerðin sendi fyrir stundu frá sér tilkynningu þar sem varað er við miklum vatnavöxtum eystra þar sem vantið flæði yfir vegi. Það geti skapað hættu og haft áhrif á aksturseiginleika bifreiða sé keyrt of hratt.

Á svæðinu er hálka, hálkublettir eða flughálka mjög víða. Ófært er um Fjarðarheiði og flughálka á Vatnsskarði eystra og nokkuð víða á Héraði.

Íbúar eru beðnir um að huga vel að niðurföllum vegna yfirstandandi vatnsveðurs og gæta vel að fasteignum sínum til að forðast tjón, sérstaklega í þeim eignum þar sem eru niðurgrafnir kjallarar.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.