Þakið fauk af verkstæði Rafeyjar

Björgunarsveitin Hérað var kölluð út á sjötta tímanum í morgun þegar þak fauk af verkstæði Rafeyjar. Á Fáskrúðsfirði var björgunarsveitin kölluð út fyrir hádegið til að hefta þakplötur.


Um miðnætti gekk í mikinn storm á Austfjörðum og um sex tímum síðar hafði hann hrifið með sér þakið af Rafey.

Að því er segir í tilkynningu Landsbjargar fór þakið af í stórum flekum og lenti á bifreiðum er stóðu nærri. Þegar björgunarsveitin kom á staðinn var ljóst að lítið var hægt að gera annað en að hindra að sá hluti þaksins sem kominn var niður ylli meiri skemmdum.

Eigandi verkstæðisins fergði hann með snjó og sá björgunarsveitin um að loka svæðið af á meðan. Ástandið var metið svo að ekki væri óhætt að fara upp á þakið til að forða frekara foki.

Bæjarstarfsmenn á Egilsstöðum, sem og víðar á Austfjörðum, hafa haft í nógu að snúast í morgun við að reyna að opna og ræsa frá niðurföllum. Bálhvasst er á svæðinu en hlýtt sem leiðir til asahláku.

Í Neskaupstað er ljóst að ekki næst að hreinsa sorp í dag. Unnið er að hreinsun á Stöðvarfirði og Fáskrúðsfirði en ekki ljóst hvort hægt verði að ljúka verkinu vegna veðurs.

Björgunarsveitin Vopni hjálpaði í morgun bílstjóra sem var lentur í vandræðum eftir að vindurinn hafði feykt bíl hans út af veginum í mikilli hálku. Björgunarsveitin var kölluð út í sambærilegt verk í gær.

Alls eru 15 verkefni skráð hjá austfirskum björgunarsveitum undanfarna viku og snérust flest um að hjálpa bílstjórum sem fest höfðu farartæki sín.

Mynd: Björgunarsveitin Hérað

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.