Séra Gunnlaugur: Tökum móti útlendingum eins og sakamönnum sem þurfa að sanna sakleysi sitt

Fáar þjóðir eru háðari öðrum um afkomu sína eins og Íslendingar. Samt virðumst við girða fyrir komu þeirra sem eru öðruvísi en við til landsins. Skoða þarf bæði gildismatið og reglurnar.

Þetta er inntak predikunar sem Gunnlaugur Stefánsson, prestur í Heydölum, flutti á aðventunni en málefni erlendra ríkisborgara hafa verið mikið í umræðunni að undanförnu, einkum albanskrar fjölskyldu með veikt barn sem hafnað var landvistarleyfi.

Gunnlaugur velti fyrir sér aðstæðum borgara frá ríkjum utan Evrópusambandsins sem hingað koma.

„Þarf útlensk fjölskylda, sem komin er inn í landið, að opinbera erfiðar aðstæður sínar og rjúfa friðhelgi einkalífsins í fjölmiðlum til að tryggja að engin ógn stafi af sér? Þá rísum við upp og viljum elska og krefjast þess, að fjölskyldan megi dvelja í landinu á meðal okkar.

Viðast eru í gildi skilyrði um útgáfu leyfa vegna búsetu erlendra ríkisborgara. En það er mikill munur á hvort sé almennt mögulegt fyrir útlendinga utan Evrópubandalagsins að setjast að á Íslandi eða illmögulegt með neikvæðu regluverki og flóknum hindrunum í umsóknarferlinu og óralöngum biðtíma í kerfinu eftir niðurstöðu.

Líkist einna helst að um meinta sakamenn sé að ræða sem þurfi að sanna sakleysi sitt."

Gunnlaugur benti á að Íslendingar treysti á aðrar þjóðir um margt. Þeir flyti inn neysluvörur, treysti á útflutning, vilji geta ferðast og fengið tekjur af erlendum gestum.

„Við viljum njóta góðs af útlendingum í viðskiptum og á ferðalögum okkar erlendis, en helst ekki hafa þá í kringum okkur í eigin landi, og alls ekki fátækt eða veikt fólk, nema efnaða ferðamenn og ódýrt vinnuafl, sem við getum grætt á og örugglega treyst að láti sér ekki til hugar koma að setjast að í landinu til frambúðar. Er þetta gildismatið, þegar málið er skoðað í kjölinn?"

Ekki sé nýtt að Íslendingar séu varir um sig gagnvart útlendingum og standi aftar flestum þjóðum veraldar í að opna landamæri sín og verið seinni til gagnkvæmra samninga um niðurfellingu vegabréfsáritana heldur en hin Norðurlöndin.

„Viðbrögð íslenskra stjórnvalda í gegnum tíðina við móttöku hælisleitenda og annarra útlendinga utan Evrópubandalagsins, sem vilja setjast hér að, bera með sér, að einhver ógn stafi af útlendingum.

Væri nú ekki ráð að horfa í eigin barm og endurskoða gildismatið á viðhorfum okkar almennt til útlendinga og móta reglur í samræmi við það?

Ef Ísland ætlar áfram að njóta góðs af samfélagi þjóðanna, þá verðum við að venjast því að útlendingar eru fólk eins og við."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.