Hótelin lokuð um hátíðarnar: Ekki nógu mikil fjölgun til að hafa opið

Lokað er á stóru hótelunum þremur á Egilsstöðum um jól og áramót. Eigandi Gistihússins á Egilsstöðum segir fjölgun í vetrarferðamennsku ekki næga til að halda uppi fullri þjónustu yfir hátíðarnar. Þeir sem selji gistingu um þetta leyti árs beri ábyrgð á sínum ferðamönnum.


„Það hefur ekki verið nógu mikil fjölgun á ferðamönnum til að það borgi sig að hafa opið. Það er dýrt að vera með starfsfólk í vinnu á stórhátíðum auk þess sem það er ekki sérstaklega spennt fyrir að vinna þessa daga," segir Gunnlaugur Jónasson hótelstjóri á Gistihúsinu á Egilsstöðum.

Hann hefur rekið það síðustu 17 ár ásamt konu sinni Huldu Daníelsdóttur og lokar nú í fyrsta sinn í fjóra daga: aðfangadag, jóladag, gamlársdag og nýársdag.

Ferðamönnum hefur fjölgað verulega á landsvísu yfir vetrarmánuðina og eftir því sem Austurfrétt kemst næst er víða bókað hjá þjónustuaðilum í öðrum landshlutum um jólin. Þessi fjölgun hefur ekki skilað sér í sama hlutfalli á Austurlandi.

„Aukningin hjá okkur er þannig að það er orðið meira að gera fram í október og tímabilið byrjar í maí en aukningin er hægari í öðrum mánuðum. Við förum kannski úr fimm herbergjum á nóttu í tíu sem er hlutfallslega mikið en ekki nóg."

Gunnlaugur segir desember hafa verið rólegan en ferðamönnum hafi aðeins fjölgað síðustu dagana fyrri jól. Lokað er á Hótel Héraði eins og verið hefur yfir hátíðarnar og í Valaskjálf eru endurbætur í gangi. Ferðamenn á Héraði eru þá hjá minni þjónustuaðilum því á sama tíma og ferðamönnunum fjölgar hefur líka orðið sprenging í framboði á gistirými.

„Sumir eru bara með opið hluta ársins til að fleyta rjómann en aðrir reyna að halda fullri þjónustu allt árið. Það er leigt út um allan bæ, sem er svo sem ágætt, en þeir sem selja gistinguna verða að gera ábyrgð á sínum viðskiptavinum. Við getum ekki haft opið til að redda mat fyrir aðra."


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.