Minningarreitur vígður á Norðfirði: Atburðir eins og þessi skilja eftir sig sár sem aldrei gróa - Myndir

Norðfirðingar fjölmenntu þegar minningarreitur um þá sem farist hafa í snjóflóðum í firðinum var vígður þar í kvöld. Forseti bæjarstjórnar sagði í ávarpi sínu að segja yrði sögu flóðanna eins og aðrar sögur.


„Atburðir eins og þessir skilja eftir sig sár sem aldrei gróa en við lærum að lifa með slíkum sárum," sagði Jón Björn Hákonarson við vígslu reitsins í kvöld.

Þann 20. desember árið 1974 fórust 12 Norðfirðingar í tveimur flóðum sem féllu. Reiturinn er þó ekki eingöngu til minningar um þá heldur einnig þá tvo sem fórust í flóði í mars 1978 og þrjá sem fórust í flóði 1885.

Í minningarreitnum er listaverk hannað af Roby Vilhjálmsson úr Listasmiðjunni í Neskaupstað og smíðað af eldsmiðjun Beate Stormo. Verkið samanstendur af 17 bláklukkum úr járni sem stendur á miklum steini. Út frá verkinu liggja þrír borðar, einn fyrir hvert flóð, með nöfnum þeirra sem fórust.

Engin ástæða til að þegja um flóðin

Hið austfirska blóm ýmist teygir sig til sólar eða drúpir þessa á milli. „Reiturinn er ekki bara til minningar um sorg heldur líka um gleði. Við vonum að reiturinn skapi fallega umgjörð um minningar okkar þannig við sem hingað komum getum komið og sest niður og leyft minningunum að njóta sín.

Við vonum að þessi reitur verði góður áningarstaður um þessa atburði sem hafa haft mikið að segja í sögu okkar og engin ástæða er til að slá þagnahjúp um. Nauðsynlegt er að minnast þeirra eins og annarra atburða sem við verðum fyrir á lífsleiðinni.

Við vonum líka að skólarnir noti þennan reit til að segja söguna því þetta er sú saga sem við eigum að segja eins og aðrar," sagði Jón Björn.

Atburðir sem við viljum aldrei að endurtaki sig

Reiturinn er við bílastæði innan við nýja slóðflóðavarnagarða á Norðfirði á þeim slóðum sem Mánahús stóð áður. Miklar framkvæmdir hafa verið við garða ofan Norðfjarðar síðustu ár og er gert ráð fyrir að þeim ljúki á næsta ári.

„Það er ekki síður táknrænt að reitnum skuli vera valinn staður við endann á þessum stóru mannvirkjum sem komin eru sem áminning um af hverju við erum að verja þetta samfélag. Þetta eru atburðir sem við viljum aldrei að endurtaki sig."

Sr. Sigurður Rúnar Ragnarsson blessaði reitinn, fulltrúar æskunnar lögðu kerti við minnisvarðann og björgunarsveitin Gerpir stóð heiðursvörð. Karlakórinn Ármenn flutti tvö lög og Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, kynnti dagskrána.

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar ákvað árið 2010 að gera minningarreit við enda garðanna. Starfshópur var skipaður um verkið árið 2012 og kallaði hann fleiri til aðstoðar.

Snjoflodaminnismerki Nesk Des15 0009 Web
Snjoflodaminnismerki Nesk Des15 0016 Web
Snjoflodaminnismerki Nesk Des15 0024 Web
Snjoflodaminnismerki Nesk Des15 0029 Web
Snjoflodaminnismerki Nesk Des15 0032 Web
Snjoflodaminnismerki Nesk Des15 0039 Web
Snjoflodaminnismerki Nesk Des15 0042 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.