Ekki aukið framlag til ME á fjárlögum: Gæti þurft að fækka áföngum

Menntaskólinn á Egilsstöðum gæti þurft að draga úr námsframboði þar sem skólinn fær ekki framlag til að mæta fjölgun fjarnema. Í fyrsta sinn í haust þurfti að hafa fjarnemum sem vildu skrá sig í áfanga.

Önnur umræða um fjárlög næsta árs stendur nú yfir á Alþingi en ekki er gert ráð fyrir að skólinn fái aukið framlag til að mæta fjölgun fjarnema.

Ennfremur hafa stjórnendur skólans áhyggjur af því að hækkun á framlagi dugi ekki til að mæta verðlagsbreytingum eða kjarahækkunum kennara og annarra starfsmanna sem ríkið hafi tekið þátt í að semja um.

Bára Mjöll Jónsdóttir, kennslustjóri fjarnáms í ME, segir fækkun nemendaígilda sé þegar byrjuð að bitna á skólanum. Þannig hafi ekki verið hægt að verða við öllum óskum um fjarnám í haust.

„Við þurftum að neita 150 skráningum. Það þýða að við þurftum að hafna 60-70 nemendum alveg og aðrir komust ekki í alla þá áfanga sem þeir vildu.

Þetta var í fyrsta sinn sem við getum ekki tekið inn alla sem sóttu um og uppfylltu öll skilyrði. Það fannst okkur erfitt."

Fjarnám við skólann hefur byggst hraðar upp eftir að nýtt kennslukerfi á netinu var tekið í notkun árið 2007. Sprenging varð í því eftir að skólinn tók upp spannarkerfi, þar sem hverri önn er skipt upp í tvær styttri og nemendur einbeita sér að færri greinum á hvorri þeirra.

„Það virðist trekkja að. Fjarnemendur eru spenntir fyrir að taka áfanga á styttri tíma og það skilar árangri því þeir klára meira en áður."

Enn fjölgaði fjarnemum upp úr síðustu áramót og nú er staðan sú að þeir eru um 400 talsins, fleiri heldur en dagskólanemendurnir sem eru innan við 300.

Meirihlut fjarnemanna kemur nú af suðvesturhorni landsins. „Flestir eru á aldrinum 18-20 ára. Þetta eru krakkar sem eru að klára stúdentinn og vantar nokkrar einingar," útskýrir Bára Mjöll.

Niðurskurður í fjarnáminu gæti haft áhrif á dagskólann. „Það er hætta að fámennari áfangar þar detti út."

Því gæti fylgt keðjuverkun. „Ef fella þarf út áfanga þarf jafnvel að segja upp kennurum. Við höfum líka áhyggjur af því hvernig gangi að byggja námið upp aftur."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.