Gert ráð fyrir 80 milljónum í flugvöllinn á Norðfirði

Gert er ráð fyrir að ríkið veiti 80 milljónum í endurbætur á Norðfjarðarflugvelli á næsta ári á móti framlagi heimamanna. Bæjarstjórinn segir það hjartans mál að efla öryggi flugvallarins.

„Það er mjög ánægjulegt að þetta sé komið á fjárlög og þýðir að við verðum að standa við okkar," segir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Á Alþingi stendur nú yfir önnur umræða um fjárlög ársins 2016. Á milli umræðna varð sú breyting að meirihluti fjárlaganefndar lagði til að 80 milljónum yrði varið til að klæða Norðfjarðarflugvöll. Með því er vonast til að völlurinn verði nothæfur fyrir sjúkraflug allt árið.

Fyrir því hafa heimamenn lengi barist og heitir allt að 75 milljóna mótframlagi. „Þetta er okkur mikið hjartans mál og því hefur sveitarfélagið gengið fram með þessum hætti að afla peninga úr Fjarðabyggð til að koma til móts við ríkið.

Við munum finna leiðir til að standa við það loforð með samstarfi við aðila sem við höfum þegar rætt við."

Páll Björgvin segir uppbyggingu flugvallarins efla þjónustu Fjórðungssjúkrahússins. „Það er mikið öryggisatriði ef flytja þarf fólk til eða frá sjúkrahúsinu að þar sé traustur flugvöllur til þess að lenda á.

Sjúkrahúsið er staðsett nálægt helstu fiskmiðum þjóðarinnar og það er gríðarlega mikið öryggisatriði að geta lent flugvélum nálægt sjúkrahúsinu."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.