Seyðfirðingar mótmæltu breytingu Landsbankans: Okkur finnst þetta hálfgert grín

landsbanki sfk fundur 20151215 1 jba webUm 50 Seyðfirðingar mættu á fund í útibúi Landsbankans í dag þar sem mótmælt var fyrirhugðum breytingum á þjónustu bankans á staðnum. Fundarstjórinn segir heimamenn álíta að breytingarnar séu ekki hugsaðar til enda.

„Þetta var mjög kraftmikill og fínn fundur. Fólki var heitt í hamsi og það voru margir sem tóku til máls því allir töldu sig hafa eitthvað fram að færa," segir Þóra Guðmundsdóttir sem skipulagði fundinn.

Hún hatt einnig af stað undirskriftasöfnun sem lauk í hádeginu. Fulltrúa bankans voru á fundinum færðir listarnir sem 314 bæjarbúar höfðu ritað nafn sitt á.

Landsbankinn tilkynnti nýverið breytingar á Seyðisfirði. Um áramót stendur til að færa afgreiðslu bankans úr núverandi útibúi yfir á sýsluskrifstofuna. Opnunartíminn verður styttur og starfsmönnum væntanlega fækkað úr þremur í einn. Pósturinn hefur einnig verið með afgreiðslu sína í bankaútibúinu en hún á að fara í verslun Samkaupa.

Ekkert pláss?

Þóra segir starfsfólk sýsluskrifstofunnar hafa verið meðal þess sem tók til máls á fundinum í gær og varað við áformunum. „Bankinn segist hafa skoðað aðstæður þar en starfsfólkið segir þetta ómögulegt."

Hún bendir á að einkum á ferjudögum gæti orðið þröngt á þingi bæði inni á skrifstofunni og utan hennar þar sem umferðarleiðir séu takmarkaðar. „Okkur finnst þetta hálfgert grín. Það virðist farið í hlutina án þess að sjá fyrir endann á þeim."

Þóra hvetur til þess að ríkisfyrirtækin tvö taki höndum saman um að halda afgreiðslum sínum gangandi og fái frekar aðra til að koma inn í það ef létta þurfi undir rekstur sameignarinnar.

„Ef flestar heimsóknir eru til Póstsins er þá ekki nær að bankinn semji við Póstinn um að halda útibúinu gangandi frekar en troða sér inn þangað sem ekkert pláss er?

Hagræðingin virðist hagræðingarinnar vegna án þess að skoða hvernig bærinn virkar. Hingað koma 60 þúsund ferðamenn á hverju ári og okkur finnst dregið úr þjónustunni bæði við þá og okkur. Okkur finnst gengið framhjá okkar sjónarmiðum og hagræðingin sé til þess fallin að skapa vandamál innanbæjar."

Ekki vön að hlustað sé á fólkið

Helgi Teitur Helgason, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs Landsbankans sem hefur umsjón með skipulagsbreytingunum, mætti á fundinn og tók við undirskriftunum. Þóra segir hann hafa lofast til að halda suður með skilaboð Seyðfirðinga en er ekki bjartsýn á að ákvörðun bankans verði endurskoðuð. „Við erum vön að ekki sé hlustað á fólkið heldur kerfislæg skjöl," segir Þóra.

„Mér finnst svör bankans alltaf vera þau sömu, að bankaþjónusta hafi dregist saman. Við vitum það, það þarf ekki að segja okkur. Hún er líka að breytast í Reykjavík en þar stendur til að byggja og bæta við.

Við viljum meira en bara hraðbanka og gjaldkera. Við erum athafnafólk sem höfum verið hollir viðskiptavinir í áratugi og gætum hugsað okkur að hafa fulltrúa oftar til samtals og samráðs.

Okkur skilst að hagræðingin skili 20 milljónum sem eru prómill af hagnaði bankans. Það var spurt fyrir hvern væri verið að hagræða og hvort innlánsvextirnir okkar myndu hækka en það var fátt um svör."

Mynd: Jónína Brá Árnadóttir

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.