Minnisvarðinn táknar þau sautján mannslíf sem snjóflóð hafa tekið í Neskaupstað

jon bjorn hakonarson mai12Minningarreiturinn er afskaplega falleg táknmynd til þess að heiðra minningu þeirra sem hafa látið lífið í þeim hamförum sem snjóflóðin hér á Norðfirði eru," segir Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar í Fjarðabyggð.

Næskomandi föstudag klukkan 18:00 verður vígður minningarreitur um snjóflóðin í Neskaupstað. Reiturinn er staðsettur innan við þéttbýlið á þeim slóðum er Mánahús stóð áður og er helgaður minningu þeirra sem farist hafa í snjóflóðum í Neskaupstað.

Minningarreiturinn hefur verið gerður samhliða uppbyggingu snjóflóðavarnarmannvirkja ofan Urðarteigs og Hlíðargötu. Mannskæð snjóflóð hafa í þrígang fallið á byggðina eða á árunum 1885, 1974 og 1978. Mannskæðustu flóðin féllu árið 1974, en þá týndu 12 manns lífi.

„Búið er að reisa tvo af fjórum varnargörðum. Þegar sé seinni var boðinn út árið 2006 kom upp sú tillaga að reisa minnisvarða á þeim stað sem flóðin 1974 féllu og var hún samþykkt samhljóða.

Settur var á laggirnar starfshópur og afraksturinn er sá að reitinn prýðir fallegur minnisvarði úr járni og íslenskum steini, hannaður af Robyn Vilhjálmsson, listakonu í Listasmiðju Norðfjarðar og smíðaður af Beate Stormo, eldsmið á Akureyri. Minnisvarðinn sýnir 17 bláklukkur í skál, sem tákna þau sautján mannslíf sem snjóflóð hafa tekið í Neskaupstað," segir Jón Björn.

Auk Jóns Björns kona að athöfninni Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri og sr. Sigurður Rúnar Ragnarsson, sóknarprestur. Fulltrúar æskunnar leggja logandi kerti við minnisvarðann og björgunarsveitin Gerpir stendur heiðursvörð og lýsir upp svæðið með kyndlum. Um tónlistarflutning sér karlakórinn Ármenn.

„Ég finn fyrir mikilli ánægju með verkefnið og ég vona að listaverkið sýni þeim sem látist hafa og ástvinum þeirra heiður og virðingu. Minnisvarðinn er einnig áminning hvers vegna varnargarðarnir rísa, auk þess sem hann er hluti af sögunni okkar hér í Neskaupstað.

Ég vonast til þess að sem flestir íbúar Fjarðabyggðar sjái sér fært um að mæta og eiga með okkur fallega og notarlega stund á föstudaginn."

Að athöfn lokinni er gestum boðið að þiggja veitingar í Mána, sem er skemma skammt frá minningarreitnum.



Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.