Ræðir aðstoð við flóttamenn: Það leggur enginn upp í þessa ferð að gamni sínu

thorunn olafsdottir nov15Fáskrúðsfirðingurinn Þórunn Ólafsdóttur dvaldist í haust við hjálparstörf á grísku eyjunni Lesbos þangað sem þúsundir flóttamanna hafa komið frá Austurlöndum síðustu mánuði. Hún segir flóttafólkið hætta öllu sínu í von um betra líf.

„Mín hugsun var að ég yrði að fara og sjá hvað væri að gerast. Ég æti alla vega skrifað og sagt frá því ég hafði ekki orðið vör við fréttir af þessu á Íslandi," segir Þórunn um ástæður þess að hún fór til Lesbos.

Hún heldur í kvöld fyrirlestur á sal Menntaskólans á Egilsstöðum þar sem hún deilir reynslu sinni og veitir upplýsingar um hvernig þeim sem heima eru á Íslandi geta hjálpað.

Þórunn rifjaði upp för sína í samtali við vikublaðið Austurgluggann fyrir skemmstu. „Ég komst að því að ég vissi ekkert. Þegar ég kom var enginn aðbúnaður og lítil aðstoð og flóttafólk úti um allt.

Ég bauð fram hjálp mína því ég hélt ég gæti aðeins létt undir, tínt rusl eða bara gert hvað sem þörf var á.

Ég var búin að vera sjálfboðaliði í fimm mínútur þegar ég var beðin um að sækja mat með öðrum sjálfboðaliða. Ég hélt að við færum í einhverja birgðastöð að ná í hjálpargögn og það væri eitthvert kerfi til staðar.

Tíu mínútum síðar var ég stödd í bakherbergi að smyrja samlokur úr brauði sem ferðamenn höfðu gefið. Það var ekki bara maturinn sem var heimagerður heldur hjálparstarfið allt."

Hún segir engan leggja upp í för sem þessa að gamni sínu. „Fólkið hættir ekki bara lífinu heldur ævisparnaðinum sem það gæti notað í að byggja sér upp framtíð annars staðar.

Það vilja allir vera heima hjá sér. Flóttafólkið hefur engan áhuga á að flýja til Evrópu. Ég get alveg orðið brjáluð þegar ég heyri fólk tala um að flóttafólkið komi hingað að gamni sínu. Ég get lofað því að enginn leggur á flótta að gamni sínu því það er dauðans alvara.

Ég man eftir manni sem fjölmiðlar spurðu þegar hann kom í land af hverju hann hefði farið af stað. Hann svaraði að það myndi enginn leggja af stað í svona ferðalag ef hann tryði því ekki að hafið væri öruggara en það sem heima er.

Það er allt í þessu einhvern vegin svo hræðilegt. Stundum höfum við ekkert að bjóða fólkinu nema bros og góðvild þegar þegar það kemur yfir. Þótt ekkert væri til og maður stöðugt að afsaka sig á hristi fólkið bara hausinn og sagði að það væri allt betra en hinu megin."

Fyrirlesturinn hefst klukkan 20:00.

Mynd: Kjartan Árni Albertsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.