Hollvinir safna fé með sölu jólakorta: Kolbrún Drífa hlutskörpust í samkeppni um myndskreytingu

hhf jolakort1Hollvinasamtök heilbrigðisþjónustu á Fljótsdalshéraði, HHF, hafa gefið út fyrsta kortið í nýrri röð jólakorta sem prýdd verða listaverkum nema af listnámsbraut Menntaskólans á Egilsstöðum. Kortin eru fjáröflunarverkefni HHF, sem styður sérstaklega við hjúkrunarheimilið Dyngju á Egilsstöðum og heilbrigðisþjónustuna á Héraði og Borgarfirði eystra.

HHF efndu í samstarfi við Írisi Lind Sævarsdóttur, starfandi verkefnisstjóra listnámsbrautar ME, til listaverkasamkeppni innan brautarinnar í vetrarbyrjun. Til grundvallar var lagt að leitað væri að forsíðumynd fyrir jólakort HHF og að þemað væri „Furan í skóginum."

20 tillögur 15 nemenda í Teik3MO-módelteikningu bárust í samkeppnina. Dómnefnd, skipuð þeim Sigrúnu Óskarsdóttur og Hjálmari Jóelssyni f.h. HHF, Steinrúnu Óttu Stefánsdóttur vöruhönnuði, Kristínu Hlíðkvist Skúladóttur myndmenntakennara og Kormáki Mána Hafsteinssyni ljósmyndara, valdi úr hópi mjög frambærilegra verka mynd eftir Kolbrúnu Drífu Eiríksdóttur. Hún er sautján ára gömul, búsett í Fellabæ og er á 2. ári á listnámsbraut ME.

Í umsögn dómnefndar kom m.a. fram að auk þess að uppfylla gefin skilyrði, væri myndbyggingin góð og myndin einkar vel unnin, hún höfðaði til margra, skæri sig úr hefðbundnum myndum af þessu tagi og byggi yfir mikilli dulúð.

Jólakortin voru prentuð í heimabyggð, í prentsmiðjunni Héraðsprenti og fór svo fram formleg afhending viðurkenningar til listamannsins Kolbrúnar Drífu hinn 25. nóvember sl. Hlaut hún að launum 20 þúsund krónur og þakkarskjal frá HHF. Það voru þau Sigrún og Hjálmar sem afhentu Kolbrúnu viðurkenninguna.

Jólakortin fást hjá Lyfju Egilsstöðum, á Bókakaffi við Lagarfljótsbrú, á skrifstofu Menntaskólans á Egilsstöðum, á Barramarkaðinum og hjá HHF.

Hollvinasamtökin voru upphaflega stofnuð fyrir tíu árum, en blásið í þau nýju lífi sl. haust. Markmiðið er að fjölga styrktaraðilum og safna fé svo styrkja megi heilbrigðisþjónustuna á Héraði með ráðum og dáð. Formaður HHF er Hjálmar Jóelsson.

Kolbrún Drífa Eiríksdóttir, nemi á listnámsbraut ME ásamt þeim Sigrúnu Óskarsdóttur og Hjálmari Jóelssyni frá HHF. Mynd: Íris Lind Sævarsdóttir.

hhf jolakort2

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.