Bæjarskrifstofan í leigumiðlun

pall bjorgvinLeigumarkaðurinn í Fjarðabyggð hefur ekki verið auðveldur viðureignar síðustu misseri en tilfinnanlega vantar eignir á skrá þrátt fyrir að þær séu til staðar í sveitarfélaginu. Bæjarstjórinn segir að málin þyrftu að vinnast hraðar hjá Íbúðalánasjóði. Fjöldi eigna frá sjóðnum er á leið á markaðinn þessa daga.

„Það er alveg rétt, ástandið hefur oft verið erfitt og við hér á bæjarskrifstofunni höfum oft farið í að vera einhverskonar leigumiðlarar og reynt þannig aðstoða fólk eins og við getum," segir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

„Við erum að sjálfsögðu öll af vilja gerð en markaðurinn þarf sjálfur að koma á framfæri eignum til leigu og sölu og koma á sambandi milli eigenda og leigjanda/kaupenda. Okkar hlutverk er að styðja við markaðinn og reyna að tryggja eðlilegt framboð á húsnæðismarkaði."


Vilja eignir Íbúðalánasjóðs hraðar í umferð

Fjarðabyggð og fleiri austfirsk sveitarfélög hafa að undanförnu þrýst á Íbúðalánasjóð um að koma eignum sem sjóðurinn á á svæðinu í umferð. Páll Björgvin segir skorta heildræna stefnu af hálfu Íbúðalánasjóðs um hvernig þeir hyggist standa að málunum bæði núna og til lengri tíma litið.

„Það er nóg til af íbúðum, það þarf bara að koma þeim í leigu. Það er mikil pressa af okkar hálfu núna og viðbrögð íbúðalánsjóðs eru góð, sem þau hafa almennt verið, en málin hafa oft á tíðum tekið allt of langan tíma. Við höfum oft þurft að ganga of langt í að koma einstökum málum áfram er varðar húsnæðismál og íbúðalánasjóður þarf að koma nær markaðnum og samfélaginu.

Við vonumst til þess að skriður sé að komast á málin núna en við hittum forsvarsmenn sjóðsins í síðustu viku auk þess sem þeir eru væntanlegir hingað í byrjun desember.

Eftirspurn eftir húsnæði á svæðinu er mikil og mun heldur aukast eftir áramót þegar Alcoa Fjarðaál tekur upp átta tíma vaktakerfi. Við þessu þarf að bregðast. Við bindum miklar vonir við fundinn og viljum ná enn betri samvinnu en hefur verið hingað til. Aðalatriðið er að húsnæði í þeirra eigu standi ekki tómt, heldur sé komið á markað."


Fjöldi eigna á leið á markað

Ágúst Kr. Björnsson, forstöðumaður fullnustueigna hjá Íbúðalánasjóði segir hreyfingu á málunum um þessar mundir. Tvö stór eignasöfn með alls 114 eignir á Egilsstöðum, Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði voru auglýst til sölu í byrjun árs. Ekkert varð af sölu þeirra þar sem kaupandi náði ekki að fjármagna kaupin. Sjóðurinn vinnur nú að því að skrá eignir úr söfnunum á fasteignasölur eystra.

Þá séu í gangi í viðræður við sveitarfélög á svæðinu um að kaupa eignir. Þær gangi vel og víða sé áhugi fyrir kaupum.

Frá árinu 2008 hefur sjóðurinn selt 241 húseign á Austurlandi fyrir um 2,3 milljarða króna, þar af um 140 eignir á síðustu þremur árum. Sjóðurinn sjálfur leigir að auki út 110 eignir á svæðinu og dótturfélag hans, Leigufélagið Klettur, leigir út 44 að auki.

Ágúst hafnar því að eignir séu látnar standa auðar frekar en að þeim sé komið í umferð. Aðspurður um stefnuleysi vildi Ágúst meina að svo væri ekki. Heimildir Íbúðalánasjóðs til leigu eigna væru takmarkaður og tímabundnar og fyrst og fremst hugsaðar sem tímabundin ráðstöfun fyrir þá sem dveldu í eignum sjóðsins til að huga að nýju búsetuúrræði.

Sjóðurinn leggi fyrst og fremst áherslu á að selja eignir en velta á fasteignamarkaði á Austurlandi hafi verið umtalsvert minni síðustu misseri en mörgum öðrum svæðum landsins. Auk þess hefði verið of mikið byggt af húsnæði samfara uppbyggingu stóriðju á Austurlandi og enn væri verið að vinna úr því. Við söluskráningu sé lögð áhersla á að verðleggja eignir sjóðsins í takt við markaðsverð á viðkomandi svæðum. Seljist eignirnar hins vegar ekki er verðlagning þeirra endurskoðuð að ákveðnum tíma liðnum.




Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.