Jón Þórðarson: Framsýnir menn byggðu upp aðstöðu í Hafnarhólmanum

jon thordarson bfj okt15Áætlað er að um 40.000 manns heimsæki Hafnarhólmann á Borgarfirði árlega til að skoða lunda og aðra fugla sem hafast þar við. Sveitarstjórinn segir hólmann dæmi um hvernit hægt sé að byggja upp ferðamannastað.

„Magnús Þorsteinsson, þáverandi sveitarstjóri og bóndi í Höfn, var í fararbroddi þegar ákveðið var að byggja upp stiga og pall í Hólmanum. Fyrstu vikuna eftir að lokið var við verkið kom enginn en svo kom einn heimamaður, Halldór Eiðsson,“ segir Jón Þórðarson, sveitarstjóri.

Staðan er er allt önnur í dag. „Við höfum nokkuð áreiðanlegar tölur um að síðasta sumar hafi yfir 40 þúsund manns gengið upp í Hólmann til að skoða fuglana. Við teljum að 80-90% þessara ferðamanna séu erlendir.“

Lundinn er aðaldráttaraflið. „Maður hittir á fólk á haustin þegar hann er farinn sem jafnvel hefur komið alla leið frá Japan eða Singapúr og það nánast brestur í grát þegar maður segir því að hann sé ekki til staðar.“

Fleiri hafast hins vegar við á svæðinu því þaðan gera borgfirskir sjómenn út. „Höfnin er okkar fjöregg. Við lifum á henni og hún skiptir okkur mestu máli. Þess vegna er ekki sama hvað við gerum þar í kring.“

Jón segir að þar sé oft þröngt á þingi. Ekki hafi enn komið til árekstra milli ferðamanna og sjómanna en nauðsynlegt sé að horfa fram í tímann til að koma í veg fyrir það.

„Borgfirskir sjómenn þekkja að það getur verið þröngt fyrir bílaumferð við höfnina. Ef við göngum út frá að fjölgun ferðamanna verði áfram svipuð og hún hefur verið þá þurfum við að gera eitthvað.“

Sveitarfélagið gekkst því nýverið fyrir arkitektasamkeppni um hönnun aðstöðuhúss í Hólmanum sem þjóna á báðum hópum. Vonast er til að hægt verði að hefja framkvæmdir árið 2017 en fyrst þarf að gera deiliskipulag.

„Þetta er hluti af því að bregðast við til lengri tíma litið. Aðstaðan á bæði að þjóna ferðamannastraumnum sem og sjómönnunum okkar og hafnsæknu starfsemi.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.