Einn alversti stormur sem Austfirðingar hafa fengið: Viðbragðsaðilar klárir í nóttina

Veðrið sem gengur í austan lands í nótt verður að líkindum verst á milli klukkan sex og tíu í fyrramálið. Viðbragðsaðilar hafa nýtt lognið á milli stormanna tveggja í að gera klárt fyrir þann seinni.


Búast má við að upp úr klukkan níu í kvöld fari að bæta í úrkomuna eystra og vind. Upp úr miðnætti verði komið austan og suðaustan rok upp í 25 m/s með mikilli rigningu.

Von er á að mesta hvassviðrið verði í fyrramálið á milli klukkan sex og tíu. Þá stendur vindurinn beint að sunnan og meðalvindstyrkurinn verður 25-30 m/s, jafnvel 33 m/s við ströndina

„Það fer eftir staðháttum hvar vindurinn verður verstur en það sleppur enginn við hann. Það er lítið skjól í þessu veðri. Það verður mikill vindur og byljóttur," segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Ekki er von á að veðrið gangi niður almennilega fyrr en eftir hádegi á morgun og áfram verði hryssingslegt veður fram á kvöld.

Í gær yfir Austfirði veður með mikilli úrkomu og hlýindum þannig að víða hlaust vatnstjón af. Viðbragsaðilar hafa því lítið sofið því dagurinn í dag á milli stormanna hefur verið nýttur til undirbúnings.

„Við höfum verið að samræma okkur. Hver sveit fer yfir sinn búnað og verður á vakt í nótt," segir Guðjón Már Jónsson formaður svæðisstjórnar björgunarsveita á Austurlandi.

Björgunarsveitarfólk hefur einnig staðið vaktina í vikunni við flugeldasöluna sem er helsta fjáröflun sveitanna. „Þrátt fyrir annríki við flugeldasölu sinnum við líka þessum málum."

Viðbragðsaðilar tala um „einn alversta storm" sem Austfirðingar hafa fengið og eru íbúar hvattir til að halda sig innandyra þar til stormurinn er genginn yfir og festa allt lauslegt áður en gengur í hann.

Hjá Vegagerðinni er verið að undirbúa lokanir á vegum en nokkuð ljóst þykir að ekkert verðaveður verði í fjórðungnum.

Einkum má búast við að hvasst verði á suðurfjörðum, svo sem Breiðdalsvík, Stöðvarfirði og Fáskrúðsfirði. Á Stöðvarfirði fer í kvöld kvöld fram Hjónaballið sem er ein stærsta samkoma bæjarbúa.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.