Austfirðingar hvattir til að huga að lausamunum og halda sig heima í nótt og fyrramálið

Almannavarnaefnd fjarða vekur athygli á mjög slæmri veðurspá fyrir Austfirði í kvöld og nótt. Full ástæða er til að gera allar nauðsynlegar og viðeigandi ráðstafanir. Fólk er hvatt til að halda sig heima við og vera ekki á ferðinni í nótt og fyrramálið.

Fyrirtæki og íbúar eru hvattir til að huga að og festa niður gáma, bretti, fiskkör, sorpílát, trampólín, skjólveggi og allt annað lauslegt á lóðum. Jafnframt að hreinsa frá og fylgjast með niðurföllum.

Íbúar eru hvattir til að fylgjast með tilkynningum á heimasíðu Fjarðabyggðar, fjardabyggd.is sem og fjölmiðlum.

Fólki er bent á að fylgjast með veðurspám og vakin er athygli á að textaspár eru nákvæmari en myndrit. Um miðnætti verður hvöss austanátt með mikilli úrkomu og undir morgun er von á mjög hvassri sunnanátt sem gæti nálgast fárviðri.

Mjög djúp lægð nálgast landið í kvöld úr suðri með ört vaxandi austan átt og fer hún allhratt norður yfir land í nótt. Aðal vindstrengur þessarar lægðar er austan við lægðarmiðjuna og gera nýjustu spár ráð fyrir að vindstrengurinn nái inn á landið austanvert með sunnan roki og sums staðar fárviðri við austurströndina í nótt.

Mikilvægt er að fylgjast með veðurspám því ekki þarf braut lægðarinnar að breytast mikið til þess að miklar breytingar verði á veðurspám. Í kvöld og nótt má einnig búast við talsverðri úrkomu suðaustanlands og á Austfjörðum.

Upp úr hádegi á morgun verður lægðin komin norður fyrir land og má þá búast við suðvestan átt 15-25 m/s með skúrum eða éljum um landið sunnan- og vestanvert, en hvassast verður þá á annesjum norðantil. Annað kvöld dregur síðan ört úr vindi.

Allar beiðnir um aðstoð skulu berast til Neyðarlínu 112.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.