Leitað að bilun á vatnslögninni fyrir Neskaupstað: Vitum ekkert enn

Enn er leitað að bilun á vatnslögninni til Neskaupstaðar en vatnið fór af bænum seinni partinn í dag. Starfsmenn bæjarins og aðrir viðbragðsaðilar hafa haft í nógu að snúast í miklu vatnsveðri í dag.

„Við vitum ekkert og erum enn að leita. Við erum komnir niður í 500 metra kafla til að leita á en það er allt á floti í fjallinu þannig að vonlaust er að finna þetta," segir Marinó Stefánsson, umhverfisstjóri Fjarðabyggðar.

Hann segir mögulegt að hlaup hafi komið úr fjalli með grjót sem gatað hafi aldna lögnina sem þoli ekki mikið. Starfsmenn eru uppi í fjallinu að grafa eftir biluninni.

Í tilkynningu sem gefin var út á vef Fjarðabyggðar segir að vatnslaus verði fram eftir nóttu.

Starfsmenn sveitarfélagsins og fleiri viðbragðsaðilar hafa haft í nógu að snúast í vatnavöxtunum í dag. Gera þarf við 16 íbúðir aldraðra í Breiðabliki eftir að inn í þær flæddi í dag og voru sjö þeirra rýmdar strax.

Marinó segir niðurföll og fráveitur engan vegin hafa haft undan. Flætt hafi inn í kjallara á þó nokkrum stöðum og lækir farið yfir garða og lóðir í Neskaupstað.

Í Norðfjarðarsveit flæðir yfir veginn á þremur stöðum og eru tvær gröfur þar stanslaust að störfum við að reyna að halda honum opnum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.