Mikið tjón í Blúskjallaranum

Óttast er að milljóna tjón hafi orðið þegar vatn flæddi inn í félagsheimili Blús-, rokk og jazzklúbbsins á Nesi (BRJÁN) í dag.


„Það er 30 sentímetra djúpt vatn í öllu húsnæðinu og mikið tjón," segir Sigurður Ólafsson, formaður klúbbsins.

Inni voru meðal annars magnarar, gítarbox, botn úr hljóðkerfi klúbbsins og trommusett. „Við vitum ekki hve mikið skemmdist en það rennblotnaði allt. Það eru talsverðar líkur á að eitthvað af þessu sé ónýtt."

Ef svo er gæti tjónið numið milljónum króna.

Sigurður var ásamt fleirum við björgunarstörf í Blúskjallaranum þegar Austurfrétt hafði tal af honum. Þar var verið að reyna að koma fyrir dælu til að minnka vatnið.

Til stóð að halda jólarokktónleika þar á miðvikudagskvöld. „Þeir verða að minnsta kosti ekki hér en við skoðum möguleikana á öðrum stað."

Samkvæmt tölum frá Veðurstofunni er úrkoman síðasta sólarhringinn í Neskaupstað 106 millimetrar. Við bætast hlýindi og hvassviðri sem leitt hafa til mikilla leysinga.

Mynd: Sigurður Ólafsson

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.