Þyrlan reyndi tvisvar að lenda í miðbæ Neskaupstaðar

Þyrla Landhelgisgæslunnar reyndi tvisvar að lenda í Neskaupstað til að sækja sjúkling í gærkvöldi áður en hún varð frá og hverfa vegna veðurs og lenda á Breiðdalsvík. Ný Norðfjarðargöng voru notuð við sjúkraflutninganna.

„Þetta gekk ágætlega fyrir rest en stóð lengi og reyndi á marga," segir Guðmundur Helgi Sigfússon, slökkviliðsstjóri Fjarðabyggðar en slökkviliðið sér um sjúkraflutninga í Fjarðabyggð.

Um klukkan þrjú í gær var ákveðið að senda nýbura af Fjórðungssjúkrahúsinu suður til Reykjavíkur. Beðið var um sjúkraflug en þegar aðstæður höfðu verið kannaðar kom í ljós að ekki væri hægt að koma vél austur.

Því var leitað til Landhelgisgæslunnar um að senda þyrlu. Hún hafði farið á loft um hádegi í gær til aðstoðar við leit á Selfossi og þurfti fyrst að fara til Reykjavíkur til áfyllingar og undirbúnings.

Þyrlan flaug meðfram suðurströndinni, tók eldsneyti á Höfn og hélt síðan áfram meðfram Austfjörðum. Um klukkan níu í gær var hún komin til Norðfjarðar en gat ekki lent vegna sviptivinda.

„Þeir reyndu að lenda á planinu í miðbænum en eftir tvær atrennur kom í ljós að það var ekki hægt. Það voru of miklar hviður þennan hálftíma sem þyrlan var hér. Við höfðum gert tvo lendingarstaði klára í bænum en það var verra veður eftir því sem innar dró í firðinum þar sem völlurinn er," segir Guðmundur.

Tveir sjúkrabílar um göngin

Þyrlan fór því aftur á loft og leitaði að hentuðum lendingarstað sunnar á Austfjörðum. Hún reyndi að lenda á Stöðvarfirði en þar var einnig og hvasst. Um klukkan tíu urðu íbúar á Breiðdalsvík varir við mikinn hávaða í bænum. Þar var þyrlan komin og settist niður á flata við skólann.

Á sama tíma voru sjúkraflutningamenn að fara af stað frá Norðfirði í fylgd björgunarsveitarmanna úr Gerpi. Ófært var yfir Oddsskarðið vegna hálku og roks þannig að farið var um hin ókláruðu Norðfjarðargöng.

„Við höfum samning um að nota þau í neyð og lykla að þeim. Verktakarnir eru í jólafríi þannig göngin voru tiltölulega hrein en þar er ekkert samband auk þess sem þau eru myrk þannig að björgunarsveitin fylgdi sjúkrabílnum."

Reyndar fóru tveir sjúkrabílar um göngin í gærkvöldi þar sem annað útkall var í gangi á sama tíma.

Sérhæfður læknir og hjúkrunarfræðingur, sem voru með í þyrlunni, komu á móti sjúkraflutningamönnum á Reyðarfirði þar sem læknirinn tók til við að gera nýburann kláran fyrir flugið.

Þyrlan hóf sig svo á loft frá Breiðdalsvík um klukkan hálf eitt í nótt og lenti við Landsspítalann kortér yfir þrjú. Síðan hefur nýburinn verið í rannsóknum.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.