Þyrlan farin frá Breiðdalsvík

Þyrla Landhelgisgæslunnar, sem kölluð var út á sjötta tímanum í dag til að sækja veikan nýbura austur í Neskaupstað, hóf sig á loft með sjúklinginn frá Breiðdalsvík á leið til Reykjavíkur um klukkan hálf eitt í nótt.


Í upphafi var gert ráð fyrir að flugið tæki um 6-7 tíma og gert var ráð fyrir eldsneytisstoppi á Höfn á báðum leiðum.

Þyrlan lenti á Höfn rétt rúmlega sjö í kvöld og hélt út fyrir Austfirði. Upp úr klukkan níu var hún komin inn í minni Norðfjarðar og hélt inn fjörðinn þar sem reynt var að lenda á flugvellinum. Það gekk ekki vegna sviptivinda upp á 35 m/s.

Hún hélt því aftur út fyrir firðina og reyndi að lenda á Stöðvarfirði en varð þar einnig frá að hverfa vegna veðurs.

Um klukkan tíu tókst henni að lenda á Breiðdalsvík. Íbúar í þorpinu urðu þá varir við mikinn hávaða og þegar þeir litu út sáu þeir þyrluna vera að setjast niður á flöt rétt hjá skólanum.

Auk þyrlulæknis voru sérhæfður læknir og hjúkrunarfræðingur með í fluginu.

Sem fyrr segir hóf þyrlan sig á loft frá Breiðdalsvík um klukkan tuttugu mínútur fyrir eitt og stefndi til hafs.

Uppfært 01.30: Í tilkynningu sem Landhelgisgæslan sendi frá sér segir að von sé á þyrlunni til borgarinnar „síðla nætur.“ Hún lendir á Höfn til að taka eldsneyti eins og áætlað var.

Þyrlan við skólahúsið á Breiðdalsvík í kvöld. Mynd: Arnþór Ingi Hermannsson

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.