Allt ónýtt í brúnni eftir brotsjó

Fleiri hundruð lítrar af sjó flæddu um borð í línubátinn Auði Vésteins þegar báturinn fékk á sig brotsjó á þriðjudag. Miklar skemmdir urðu á bátnum.

Á vefnum Aflafréttir er greint frá því að báturinn hafi verið í sinni síðustu ferð fyrri jól í nokkuð góðu veðri. Heldur var þó farið að bæta í vind þegar skipverjar voru að leggja af stað í land.

Báturinn var um 10 sjómílur austsuðaustur af Papey þegar gríðarstór hnútur myndaðist framan við bátinn og kom á hann. Við það brotnaði ein rúða í brú og önnur fór alveg úr.

Gríðarlegt magn af sjó fór inn í bátinn og öll tæki í brúnni eyðilögðust, sem og símar þeirra fjögurra áhafnarmeðlima sem voru um borð. Eins komst sjór inn í önnur rými bátsins.

Með varatæki tókst að koma kalli eftir aðstoð til nærstaddra báta og björgunarsveita. Þegar ljóst var að allir fjórir áhafnarmeðlimir væru heilir á húfi og öryggi bátsins tryggt var aðstoð sveitanna afturkölluð.

Auði var siglt til Djúpavogs en hún er gerð út frá Stöðvarfirði. Strax var ráðist í viðgerð á henni og er vonast til að henni verði lokið fyrir áramót.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.