Víða skemmdir eftir vatnsveðrið í gær – Myndir

Skemmdir eru víða á vegakerfinu á Austurlandi og fleiri mannvirkjum eftir mikið vatnsveður sem gekk yfir fjórðunginn í gær. Enn er ekki hægt að meta tjónið að fullu.


Vegagerðarmenn voru á fullu í gær við að grafa frá ræsum og upp úr skurðum til að forða tjóni á vegum. Því var haldið áfram.

„Það eru vegir skemmdir alls staðar. Það var vatn alls staðar og át úr köntunum," var lýsing eins þeirra í stuttu samtali við Austurfrétt.

Vattarnesvegur fór í sundur á nokkrum stöðum og í Fáskrúðsfirði var grjóti keyrt að veginum til að reyna að verja hann.

Ofan Grænafells hafði fallið krapaspýja og grafið undan vegriðinu á um 200 metra kafla.

Neðst í Grænafellinu féll skriða yfir veginn um kvöldmat í gær um 150 metra breið. Gegnt henni í Reyðarfirði, fyrir ofan bæinn Áreyjar hafði fallið skriða og fleiri slíkar voru sjáanlegar inn á Áreyjadal.

Við Andapollinn á Reyðarfirði hafði útfallið breytt um ham og rofið mannhæðarhátt skarð í veginn.

Áin rann ekki svona áður

Sex hús voru rýmd á Eskifirði í gærkvöld eftir að hlaup í Grjótá. Hún fellur í farvegi þvert fyrir ofan bæinn áður en hún tekur stefnuna niður á við og þar rennur í hana vatn úr minni giljum.

Svo virðist sem hlaupið hafi hafist þar upp frá og vaxið eftir því sem neðar dró. Íbúar við ána heyrðu miklar drunur þegar hlaupið ruddist fram. Svo virðist sem áin hafi borið með sér fleiri tonn af grjóti og breytt farvegi sínum. „Áin rann ekki svona áður," sagði einn íbúanna í dag.

Í gær og nótt var unnið við að moka grjóti upp úr ánni til að halda henni í farveginum. Í gær var óttast að hún kynni að ryðja sér leið inn fyrir ofan íbúabyggðina í Bleiksárhlíð.

Brú brotnaði í látunum

Í Neskaupstað rann vatn inn í kjallara víða og olli skemmdum. Þær urðu hvað mestar í íbúðum aldraðra í Breiðabliki við Fjórðungssjúkrahúsið. Vatn komst inn í einar 16 íbúðir, þar af varð að rýma sjö þeirra strax og flytja íbúa á brott. Þar gekk því mikið á í gær.

Ekki er búið að meta skemmdirnar til fulls, til dæmis á eftir að koma hvað hefur skemmst af öðru tréverki svo sem hurðum.

Skemmdir voru víða merkjanlegar á götum bæjarins í dag.

Í Skriðdal óx áin Jóka og gróf undan gömlu brúnni sem er nokkrum metrum ofan við núverandi brú á Hringveginum. Brúargólfið brotnaði og féll í ána. Þá hafði áin grafið í varnargarð sem liggur niður á milli brúanna.

Ovedur 20151229 0001 Web
Ovedur 20151229 0009 Web
Ovedur 20151229 0073 Web
Ovedur 20151229 0011 Web
Ovedur 20151229 0015 Web
Ovedur 20151229 0026 Web
Ovedur 20151229 0028 Web
Ovedur 20151229 0035 Web
Ovedur 20151229 0040 Web
Ovedur 20151229 0046 Web
Ovedur 20151229 0084 Web
Ovedur 20151229 0050 Web
Ovedur 20151229 0051 Web
Ovedur 20151229 0053 Web
Ovedur 20151229 0055 Web
Ovedur 20151229 0060 Web
Ovedur 20151229 0064 Web

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.