Selja Travel East: Gaman að byggja upp fyrirtæki sem eflir Austurland

Heiður Vigfúsdóttir, fyrrum eigandi ferðaskrifstofunnar Travel East, telur skrifstofunni vel borgið í höndum nýs eiganda. Við tekur uppbygging viðburða- og þjónustufyrirtækis undir nafni Austurfarar.

„Okkur líður furðuvel miðað við hversu hratt þetta gerðist og að við voru aldrei búin að sjá fyrir okkur sölu sem möguleika," segir Heiður.

Friðrik Árnason, eigandi Hótels Bláfells á Breiðdalsvík, hefur keypt ferðaskrifstofuna af Heiði og Magnfríði Ólöfu Pétursdóttur.

„Við fundum að við þurftum að einfalda reksturinn þar sem við höfum annars vegar verið með ferðaskrifstofu, hins vegar viðburða- og þjónustufyrirtæki.

Við vorum að íhuga að sérhæfa okkur í jeppa- og gönguferðum og vorum að ræða við aðila úr Breiðdal og víðar um samstarf. Friðrik kom á fundi með okkur og slengdi þessu fram og við töldum þetta réttan tímapunkt."

Þær halda áfram rekstri Austurfarar sem meðal annars sér um Egilsstaðastofu, tjaldsvæðið á Egilsstöðum, verkefni fyrir Þjónustusamfélagið á Héraði auk þess sem þær halda áfram viðburðastjórnum og skipulagningu sérferða. Þriðji starfsmaðurinn skiptist fram á vor á milli Austurfarar og Travel East. „Við erum opin fyrir nýjum verkefnum."

Heiður segist sannfærð um að ferðaskrifstofan verði í góðum höndum hjá nýjum eiganda. „Við treystum Friðriki til að gera flotta hluti og hefðum aldrei selt nema við værum vissar um að starfinu verði haldið áfram."

Hún kveðst ganga sátt frá borði, sannfærð um að Travel East hafi sett mark sitt á austfirska ferðaþjónustu. „Það er búið að vera gaman að byggja upp fyrirtæki sem að mínu viti hefur gert helling fyrir svæðið og haft áhrif á bæði samstarfs- og samkeppnisaðila."

Magnfríður lengst til vinstri og Heiður fyrir miðju. Mynd: Austurför

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.