Rekstur Egilsbúðar boðinn út: Daglegur veitingarekstur erfiður

Fjarðabyggð hefur óskað eftir tilboðum frá áhugasömum aðilum til að taka að sér rekstur félagsheimilisins Egilsbúðar í Neskaupstað. Bæjarstjórinn segir vilja til að efla menningarhlutverk hússins.


„Við förum þá leið að auglýsa húsið til rekstraraðila þar sem áhersla verður á uppbyggingu menningarstarfsemi og viljum gera það í góðu samstarfi við grasrótina í bæjarfélaginu," segir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri.

„Það er mjög lítil breyting á núverandi fyrirkomulagi utan þess að við drögum úr áherslunni á að þar sé rekinn veitingastaður."

Standi fyrir fjölskylduvænum viðburðum

Farin er samningskaupaleið og auglýst eftir rekstraraðila sem vilji byggja upp fjölskylduvæna starfsemi. Hann þarf að gera hópum og einstaklingum kleift að notfæra sér aðstöðuna.

Gert er ráð fyrir að rekstraraðilinn standi fyrir fjölskylduvænum viðburðum og þjónusti viðburði eftir samkomulagi, bjóða upp á menningarviðburði, annast dansleikjahald, leigja sali fyrir fundi og einstaklinga og viðhalda hefðum sem skapist hafi í skemmtana- og menningarlífi Norðfirðinga.

Neistaflug, Eistnaflug og þorrablótin tvö njóta forgangs þegar þau eru haldin og BRJÁN, leikfélögin tvö í bænum og Tónskólinn eiga að hafa aðstöðu undir starfsemi sína.

Ekki er hins vegar gerð krafa um veitingarekstur og hafa sumir heimamenn látið í ljósi áhyggjur sínar um að Egilsbúið verði að draugahúsi verði daglegur rekstur ekki lengur í því.

Ekki hægt að krefjast veitinga

Innan stjórnkerfis Fjarðabyggðar var meðal annars spurt heimilt væri að leigja húsnæði sveitarfélagsins undir veitingarekstur á grundvelli samkeppnissjónarmiða.

Í áliti lögfræðings sveitarfélagsins segir að almennt sé í lagi að leigja út húsnæði sveitarfélags á markaðsverði til þeirrar starfsemi sem heimil sé í húsinu, svo veitinga. Það kunni hins vegar að vera brot á samkeppnislögum að krefjast þess að slík starfsemi sé í húsinu þar sem slíkt geti raskað samkeppni en sex aðilar sinna veitingarekstri í Neskaupstað í dag.

Í bæði áliti lögfræðingsins og minnisblaði bæjarstjóra er haft eftir núverandi rekstraraðila að krafa um daglegan veitingarekstur geti verið kvöð. Vonlaust sé að reka veitingasöluna nema vera með aðra tengda starfsemi í Egilsbúð. Því hafi matsölu í hádeginu verið hætt vegna lítillar aðsóknar og aðsóknin sé dræm í annað en flatbökur og hamborgara þegar ekkert sé að gerast í félagsheimilinu.

Í minnisblaðinu er einnig vísað til fundar með forsvarsmönnum menningarfélaga í sveitarfélaginu sem hafi ekki talið þörf á matsölustað í Egilsbúð en þar væri aðstaða fyrir tilfallandi viðburði eins og fermingarveislur og húsið verði nýtt undir menningarstarfsemi á breiðum grundvelli. Rekstaraðila sé að halda utan um dagskrá hússins, umsjón og leyfishald.

Niðurstaða bæjarstjórans er því að óvíst sé að hægt sé að reka veitingastað í Egilsbúð en frekar eigi að horfa í menningartengda notkun „með öflugri starfsemi í húsinu má hefja Egilsbúð aftur til vegs og virðingar þannig að sómi verði að."

Ekki starfsleyfi nema með viðhaldi

Allir aðilar eru sammála um að viðhalds sé þörf á húsinu. Í nýjustu fundargerð Heilbrigðiseftirlits Austurlands er bókuð undanþága á rekstri til áramóta þegar núgildandi starfsleyfi rennur út en ekki verði samþykkt nýtt starfsleyfi fyrir veitingastarfsemi eins og verið hefur án viðamikilla lagfæringa á húsinu.

Eins voru gerðar athugasemdir við þrif og meðferð matvæla hjá rekstaraðilanum sem bætt hafi verið úr.


Þær upplýsingar fengust hjá eftirlitinu í morgun að um væri að ræða slit á húsinu, utan sem innan. Bæjarráð hefur falið bæjarstjóranum að vinna áætlun um viðhald hússins og leita lausna. Páll Björgvin segir unnið í því samhliða útboði rekstursins.

Frestur er fram á Þorláksmessu til að skila tilboðum. Menningarfélögin munu koma að vali rekstaraðila með bæjaryfirvöldum. Reksturinn er boðinn út til tveggja ára með möguleika á tveggja ára framlengingu.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.