Foktjón á bifreiðum ekki bætt

Hvorki Viðlagatrygging né tryggingafélögin tryggja foktjón sem varð á bifreiðum í óveðrinu sem gekk yfir Austfirði síðasta fimmtudagsmorgun.


„Það var mikið tjón á bílum, einkum Stöðvarfirði, sem ekki er bætt,“ segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar.

Stofnunin stóð fyrir fundum vegna tjóna í óveðrunum eystra á þremur stöðum í gær. Á Stöðvarfirði brotnuðu bæði rúður í bílum vegna foks og lakk skemmdist þegar möl fauk á bílana.

Rúðurnar eru tryggðar með bilrúðutryggingum hjá tryggingafélögunum en ytra byrði bílanna ekki.

„Það eru skilmálar í bifreiðatryggingum að foktjón vegna malar og sands er ekki tryggt og Viðlagatrygging tryggir ekki bíla,“ segir Hulda.

Hún segir fundina í dag bæði hafa verið nýtta til að fara yfir þau tjón sem hægt er að bæta og eins upplýsa fólk um hvaða tjón eru ekki bætt. Hún segir tjónin á bílunum á Stöðvarfirði vera stærst í þeim flokki.

„Miðað við það sem uppi er í dag þá er það tjón sem ekki er bætt og fólk situr uppi með. Þetta er sama og gerðist í gosinu í Eyjafjallajökli, bílarnir urðu sandblásnir og það var ekki bætt. Síðan eru einhver dæmi um að fólk sé ekki með foktryggingar á fasteignum en það er lítið um það.“

Mynd: Arnar Snær Sigurjónsson

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.