Leitað að myglu í kennslustofum í Fellaskóla

Sýnatökur í tveimur kennslustofum Fellaskóla benda til þess að myglusveppur sé þar til staðar. Sjáanleg mygla hefur ekki fundist en ráðist hefur verið í hreinsun og viðgerðum á kennslustofunum tveimur.


Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, segir að ráðist hafi verið í sýnatökur eftir að grunur vaknaði um mygluna og niðurstöður þeirra hafi bent til þess að mygla væri í handmenntastofu og raungreinastofu sem eru á annarri hæð skólans.

Stofurnar voru tæmdar og einangraðar og munir í þeim hreinsaðir eða hent. Sýnatökur síðan benda til þess að dregið hafi úr myglumengun.

Sýnileg mygla hefur ekki fundist enn og því segir Björn erfitt að segja til um umfangið. Hennar er hins vegar leitað.

Það er gert með því að losa loftplötur og því að bora göt á loft og veggi. Unnið er að því að rjúfa einangrun upp í þak auk þess sem að fleiri sýni verða tekin.

Björn segir því óvíst hvenær stofurnar verði teknar í notkun á ný. „Þegar að niðurstöður úr þessari vinnu liggja fyrir verður ráðist í nauðsynlegar og vonandi varanlegar lagfæringar og húsnæðið tekið í notkun í framhaldi af því.

Á þessari stundu er ekki hægt að segja til um það hve langan tíma þetta kann að taka en reikna má með því að verulegur hluti efri hæðarinnar nýtist ekki starfsemi skólans fyrr en í fyrsta lagi í febrúar.“

Hann segir engin staðfest veikindi nemenda eða starfsfólks mega rekja til myglunnar. Það sé þó útilokað því einstaklingar eru mis viðkvæmir fyrir efnum sem myglusveppurinn gefur frá sér.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.