Með nýfæddan son sinn í þyrluflug: Fæðingin var besta jólagjöfin

Litli drengurinn þeirra Jóhönnu Sigfúsdóttur og Sveins Gunnars Guðmundssonar hefur lent í fleiri ævintýrum en flestir jafnaldrar hans, en aðeins tveggja daga gamall þurfti hann að komast undir læknishendur í Reykjavík sem var erfitt vegna mikil veðurofsa. Betur fór en á horfðist og var hann greindur með bakflæði og útskrifaður á gamlársdag.


„Hann átti að fæðast 14. desember en lét bíða eftir sér fram að hádegi á jóladag. Ég var búin að undirbúa mig andlega fyrir gangsetningu sem átti að gera 27. desember, en það var þó eitthvað sem ég vildi alls ekki lenda í. Þetta var því besta jólagjöfin,“ segir Jóhanna.

Fæðingin sjálf gekk hratt og vel og klukkan 13:05 fæddist 13 marka og 55 sentimetra heilbrigður drengur. 

„Hann fæddist með andlitið upp og gleypti þess vegna töluvert legvatn í fæðingunni, ældi miklu slími og vildi alls ekki drekka.

Það er ekki óalgengt að nýburar séu latir að drekka og átti þetta því bara að ganga yfir. Hann var hins vegar fæddur stór en léttur og mátti því ekki við því þyngdartapi sem hann lenti í við þetta.

Þegar hann var tveggja daga gamall var ljóst að við þyrftum að fara með hann suður í nánara eftirlit og í rauninni fórum við til þess að útiloka lömun í maga, því einkennin lýstu sér alveg eins þannig,“ segir Jóhanna.

Átta tíma ferðalag

Ferlið hóst um hádegi sunnudaginn 27. desember. Veður var gott í Neskaupstað fyrri part dags og fyrsta áætlun gerði ráð fyrir því að keyrt yrði með barnið í Egilsstaði og þaðan yrði það flutt með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Það gekk ekki eftir þar sem ekki var hægt að lenda á Egilsstöðum vegna veðurs.

Því var ráðgert að þyrla Landhelgisgæslunnar myndi sækja barnið í Neskaupstað en eftir nokkrar árangurslausar tilraunir til þess að lenda varð hún frá að snúa vegna mikilla sviptivinda. Þyrlunni tókst loks að lenda á Breiðdalsvík eftir kvöldmat.

„Við fórum af stað af sjúkrahúsinu um hálf níu í með ljósmóðurinni Oddnýju Ösp Gísladóttur og vorum ekki komin á Breiðdalsvík fyrr en um miðnætti,“ segir Sveinn.

„Veðrið var gersamlega kolvitlaust og sjúkrabíllinn fékk fylgd björgunarsveitarinnar í Neskaupsstað í Norðfirði og gegnum nýju göngin, sem eru illfær.

Pabbi (Guðmundur H. Sigfússon, slökkviliðsstjóri Fjarðabyggðar) fygldi okkur svo frá göngunum Eskifjarðarmegin og út að slökkvistöðinni á álverslóðinni. Þar hittum við barnalækni sem kom með þyrlunni og var ferjaður af björgunarsveitarmanni frá Breiðdalsvík sem fylgdi okkur fra Reyðarfirði á Breiðdalsvík, en töluvert grjóthrun hafði orðið í skriðunum.“

Faðir barnsins komst ekki með vegna veikinda

Þyrluferðin tók rúma þrjá tíma með eldsneytisstoppi á Höfn og lenti í Reykjavík um hálf fjögur. Ekki nóg með að vandræði væru með nýburann, heldur fékk hinn nýbakaði faðir svæsna ælupest kvöldið eftir fæðinguna.

„Það var ekki eitt, heldur allt. Úr varð að ég fór ekki strax með til Reykjavíkur, enda hefði ekki fengið inngöngu á vökudeildina. Móðir Jóhönnu, Guðrún Linda Hilmarsdóttir, fór því með í minn stað,“ segir Sveinn.

„Við fundum ekki mikið fyrir veðrinu í þyrlunni, ég var búin að undirbúa mig var búin að undirbúa mig fyrir mun verri ferð. Þeir hjá Landhelgisgæslunni eru algerir snillingar, buðu okkur bæði að borða og drekka, þetta var bara eins og á lúxushóteli.

Það var þó frekar þröng um okkur þar sem við vorum mörg um borð, en auk mín og litla voru það tveir flugmenn og mamma sat á milli þeirra í aukasæti – flugvirki, maður á tölvunni sem leiðbeindi um flugið, læknir frá Landhelgisgæslunni, barnalæknir frá Landspítalanum og hjúkrunarfræðingur með honum. En, þröngt mega sáttir sitja,“ segir Jóhanna.

Drengurinn greindur með bakflæði

Rannsóknir hófust um leið og lent var með barnið á Landspítalanum.

„Fyrstu niðurstöður komu meira að segja áður en við fórum að sofa, þar sem við fengum að vita að bæði blóðrannsókn og myndatökur hefðu komið vel út. Við mamma lögðum okkur svo í einn og hálfan tíma áður en haldið var áfram að skoða hann,“ segir Jóhanna.

Litla fjölskyldan var svo útskrifuð á gamlársdag, en Sveinn komst að lokum suður eftir veikindi og að hafa verið veðurtepptur.

„Niðurstaðan var bakflæði sem er mjög algengt hjá ungabörnum og sérstaklega strákum, en það er eitthvað sem mun eldast af honum. Hann er þó með óvenjulega stórt magaop og er á lyfjum til þess að laga það. Það var því sem betur fer ekkert annað að hrjá hann heldur en bakflæði og byrjunarörðugleikarnir hans,“ segir Jóhanna.

Ótrúleg fagmennska í einu og öllu

Drengurinn er farinn að drekka vel og er allur að braggst. En hvernig var þessi upplifun fyrir unga og nýbakaða foreldra?

„Auðvitað vorum við bæði áhyggjufull og stressuð, en Oddný Ösp var svo yfirveguð og hélt okkur alveg pollrólegum allan tímann, þannig að okkur leið aldrei eins og ástandið væri tvísýnt. Hún á mikið hrós skilið.

Fólkið á vökudeildinni var svo einnig alveg yndislegt og í rauninni finnst mér það ekki vera mannlegt, heldur eitthvað miklu meira,“ segir Jóhanna.

„Ég hef aldrei sé aðra eins fagmennsku í einu og öllu og þar. Upplýsingaflæðið er ótrúlegt, þau vinna saman eins og vel smurð vél.

Við erum þó mjög þreytt og fundum vel þegar við komum heim hve lengi við erum búin að keyra á adrenalíninu einu saman. Litli maðurinn er sem betur fer samvinnuþýður og leyfir okkur að sofa alla nætur, utan tveggja drykkjupása.

Við erum full þakklætis til allra þeirra sem að ferlinu komu á einn eða annan hátt. Það er alls ekki sjálfgefið að fá svo faglega og góða þjónustu í hverju horni,“ segir Sveinn að lokum.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.