David Tencer: Frelsið verður að ríkja frá báðum hliðum

Biskup kaþólskra á Íslandi telur umræðu um trúfrelsi á Íslandi vera farna að snúast upp í að sótt sé að trúuðum. Afleiðingarnar séu þær að menn verði hræddari við að játa trú sína og það hafi áhrif á menningu þjóðarinnar, til dæmis jólahaldið.


„Ég held að það séu ekki margir á móti trú en ég held að þeir misnoti þessa tilfinningu okkar,“ segir David í viðtali í síðasta tölublaði Austurgluggans.

Hann var áður munkur á Kollaleiru en var vígður sem biskup í lok október. Í viðtalinu rifjar hann meðal annars upp fræga sögu af því þegar hann gat ekki keypt Jesúbarnið á Reyðarfirði til að nota í helgileik en þar hafi verið aðrir jólahlutir sem tengdust trúnni síður.

„Mér finnst íslensk menning vera að breytast. Mér finnst þeir vera hættir að tala um að jólin snúist um Jesú. Ég held að þetta hafi ekki áður snúist allt um jólasveina og þannig. Þetta er menning sem er ekki menning fólksins því fólkið er trúað. Ég held að það sé eitthvað á bak við sem stjórni.“

Ótti við að játa trúna

Hann er líka tilbúinn með skýringuna þegar hann er beðinn um hana. „Mér finnst það vera þessi ótti við að segja opinberlega: „Já, ég er trúaður.“ Sá sem segist vera það er sagður ónútímalegur og á móti samkynhneigðum, fóstureyðingum og fleiru.

David er alinn upp í Slóvakíu en kom til Íslands árið 2005. Í viðtalinu rifjar hann einnig upp valdatíma kommúnista í heimalandinu þar sem yfirvöld gengu hart fram gegn trúuðum og mörg dæmi eru um að trúarleiðtogar, svo sem prestar, hafi verið fangelsaðir.

„Menn fóru leynt með trú sína af ótta við að lenda í fangelsi. Þegar ég skráði mig í prestaskóla var pabba bannað að halda áfram að kenna því kennari mátti ekki boða neitt sem ekki var í samræmi við stefnu ríkisins. Hann var ekki kommúnisti en gaf hvergi eftir og fór að vinna sem pípulagningamaður.“

„Þeir sem eru á annarri skoðun eru krossfestir“

Hann bendir á að þar hafi fámennur hópur ráðið yfir öðrum með ótta og ofsóknum. Á Íslandi eru tæp 95% íbúa skráðir í trúar- og lífsskoðunarfélög. Hann hefur áhyggjur af því að hérlendis sé vegið að mikilvægu frelsi fólks.

„Þetta fer ekki hátt en prófaðu að segja eitthvað til dæmis gegn samkynhneigðum. Prófaðu að gagnrýna fóstureyðingar. Við höfum reynslu af því hjá kaþólsku kirkjunni. Við trúum því að maður sé maður allt frá byrjun, með sál og líf. Það hlýtur alltaf vera hægt að finna lausn en þetta er ekki lausn fyrir okkur, bara dráp.

Það er hópur kaþólikka sem vill að fóstureyðingum verði hætt. Þessi hópur kemur saman á miðvikudögum við Landspítalann, fer með bænir og leggur rósakrans. Þessi hópur hefur sætt ofsóknum, einkum af hópum sem kenna sig við réttindi kvenna. Það eru teknar myndir af hópnum, fjallað um þá í blöðum og veist að þeim.

Mér finnst að það verði að ríkja frelsi frá báðum hliðum. Sá sem tilheyrir hóp getur ekki krafist þess að réttindi hans séu virt þegar hann sjálfur virðir ekki réttindi 95% þjóðarinnar.

Það eru ekki margir í svona hópum en þeir ofsækja alla. Þeir sem eru á annarri skoðun eru krossfestir.

Ég trúi ekki að þetta sé menning Íslendinga og er reyndar viss um það. Þeir Íslendingar sem ég þekki, og þeir eru ekki fáir, eru ekki svona. Þeir eru mjög opið og gott fólk.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.