Skólastjórar á Reyðarfirði segja upp vegna óánægju með kjaramál

grunnskoli reydarfjardar streetviewÞrír stjórnendur í Grunnskóla Reyðarfjarðar hafa sagt upp störfum vegna óánægju með gang kjaraviðræðna en þær hafa staðið yfir í rúmt ár. Kurr er víðar meðal skólastjórnenda en hreyfing virðist vera á viðræðum.

„Já, við sögðum upp allar þrjár í þessum skóla síðasta föstudag. Það er eingöngu út af genginu í kjaraviðræðunum.

Við höfum ekki verkfallsrétt og viljum ekki melda okkur inn veikar svo þetta er eina vopnið sem við höfum," segir Ásta Ásgeirsdóttir, skólastjóri.

Tólf stjórnendur í skólum Fjarðabyggðar funduðu á föstudag og sendu frá sér ályktun þar sem þeir lýstu yfir „miklum áhyggjum og vonbrigðum" með stöðu samningamála milli Skólastjórnendafélags Íslands og launanefndar sveitarfélaga.

Þar segjast þeir vera farnir alvarlega að íhuga að segja upp störfum nema fram komi hugarfarsbreyting af hálfu samninganefndarinnar í formi ásættanlegs tilboðs.

Stjórnendurnir á Reyðarfirði fylgdu þessu eftir með uppsögnum. Starfsmenn skólans skrifuðu undir erindi sem afhent var bæjarráði Fjarðabyggðar í gær þar sem þeir lýsa yfir áhyggjum sínum af uppsögnunum en um leið stuðningi við stjórnendurna.

„Við höfum ekki fundið annað en fullan stuðning frá okkar starfsfólki og það er notalegt að finna hann," segir Ásta.

Eitt af því sem skólastjórar eru óánægðastir með að vera sumir orðnir lægri í launum heldur en almennir kennarar eftir nýja kjarasamninga kennara vorið 2014.

„Hér eru deildarstjórinn og aðstoðarskólastjórinn báðar lægri í launum heldur en ef þær væru umsjónarkennarar," útskýrir Ásta.

Stjórnendurnir telja til dæmis ekki ásættanlegt að vinna og álag við innleiðingu kjarasamninga kennara hafi lent á þeim án þess að það hafi skilað sér í launum.

„Okkur hefur þótt einkennilega að þessum samningum staðið. Það er gengið frá kjarasamningum kennara, sem er vel, en ekki klárað að semja við stjórnendur. Á sama tíma er bætt á okkur vinna við innleiðingu þeirra, þótt hún hafi gengið vel hér."

Uppsagnirnar eiga sér nokkurn aðdraganda þar sem viðræður um kjör skjólastjórnenda hafa staðið síðan haustið 2014. „Við höfum velt þessari leið fyrir okkur í allt haust en okkur fannst nóg komið á föstudag. Okkur finnst gaman í vinnunni en þetta er ekki ásættanlegt."

Ásta ítrekar hins vegar að stjórnendurnir á Reyðarfirði séu tilbúnir að endurskoða afstöðu sína ef samningar náist. „Það er skýrt tekið fram í okkar bréfum að við séum tilbúnar að draga uppsagnirnar til baka vilji Fjarðabyggð nýta starfskrafta okkar og við höfum ekki heyrt annað en við fáum að draga þær til baka ef samningar nást."

Sem gæti jafnvel gerst í dag. „Við fengum póst á laugardag um að viðsnúningur hafi orðið í viðræðunum og mögulega verður skrifað undir eitthvað í dag."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.