Óttast niðurskurð í fræðslumálum: Nefndin þurfti að laga sig að settum ramma

baejarskrifstofur egilsstodum 3Fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs óttast að tillögur meirihluta fræðslunefndar um sparnað í fræðslumálum feli í sér óásættanlega þjónustuskerðingu. Útlit er fyrir að tillögurnar gangi til baka að hluta. Bæjarfulltrúar meirihlutans segja nefndina hafa unnið gott starf við erfiðar aðstæður.

„Við gerum okkur grein fyrir að þessar tillögur eru ekki fyllilega settar fram af frjálsum vilja heldur til að ná ákveðnum ramma. Við lítum hins vegar svo á að þarna séu tillögur sem eru alls ekki ásættanlegar og munum vinna gegn því að þetta verði endanlega niðurstaðan og höfum reyndar fulla trú á að svo verði ekki."

Þetta sagði Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknarmanna í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs, þegar hann fylgdi úr garði bókun listans um tillögur fræðslunefndar fyrir fjárhagsáætlun næsta árs á fundi bæjastjórnar í síðustu viku.

Í bókun meirihluta fræðslunefndar segir að nefndin vísi drögum að fjárhagsáætlun fræðslusviðs til bæjarstjórnar með þeim forsendum sem að baki henni liggi en veki um leið sérstaka athygli á lögbundnum verkefnum og mikilvægi málaflokksins.

Vara við áhrifum á leikskólana

Gunnhildur Ingvarsdóttir, fulltrúi Framsóknarflokksins í nefndinni sat hjá við afgreiðsluna. Í bókun harmaði hún þann niðurskurð sem í áætluninni fælist. Hún segir þar nauðsynlegt að fara yfir fjárhagsáætlun sveitarfélagsins í heild og forgangsraða þannig að til þrautar sé reynt að komast hjá því að skerða þjónustu sem varði velferð og framtíð barna og unglinga.

Útgjöld sveitarfélagsins til fræðslumála nema um 1,5 milljarði króna eða um helmingi allra útgjalda þess. Við umræður í bæjarstjórn kom fram að fræðslunefndin hefði þurft að vinna upp um 60 milljóna mismun en ekki komist niður í nema 14 milljónir.

Í bókun minnihlutans er sérstaklega varað við áhrifum á leikskólanna en meðal annars mun hafa verið rætt um að leggja af eins árs deild.

Ekki nefndarinnar að benda á sparnað annars staðar

Fulltrúar meirihlutans vörðu fræðslunefndina með þeim orðum að henni hefði verið falið erfitt hlutverk við að laga verkefnin að ákveðnum fjárhagsramma. Hún hafi því ekki getað gert annað en leggja til niðurskurð.

Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs af Á-lista, gagnrýndi bókun Gunnhildar og efaðist um að það væri nefndarinnar að benda á aðrar leiðir til niðurskurðar hjá sveitarfélaginu.

Sigrún Blöndal, forseti bæjarstjórnar, sagði fulltrúann vera að þvo hendur sínar af áætluninni með því að benda á ramma nefndarinnar. „Það er ekki þannig að nefndarmenn hafi getað lagt upp hlutina á þann hátt. Ég get skilið afstöðu fulltrúans og er sannfærð um að aðrir fulltrúar hefðu verið til í að gera það sama. Ef nefndir reyndu ekki að loka sínum áætlunum þá værum við í talsverðum vandræðum í þessari áætlunargerð."

Sigrún viðurkenndi hins vegar að það hefði verið „mikil afturför" ef fylgja hefði þurft öllum tillögum nefndarinnar eftir.

Ekki þörf á jafn miklum niðurskurði og óttast var

Þau bæði sem og Anna Alexandersdóttir, oddviti sjálfstæðismanna, minntu á að tillögurnar væru ekki frágengnar. Þau bentu á að á vinnufundi bæjarstjórnar um fjárhagsáætlunargerðina, daginn fyrir bæjarstjórnarfundinn, hefðu komið fram nýjar upplýsingar um tekjur sem þýddu að ekki þyrfti að skera jafn mikið niður og áður hafi verið ætlað.

„Það er því ástæðulaust að rugga bátnum og setja titring út í samfélagið. Það er alls ekki verið að fara í þessa hluti sem lagðir voru til."

Fjárhagsáætlunin verður ekki afgreidd endanlega fyrr en eftir mánuð. Þangað til verður hún til frekari umræðu í bæjarstjórn og nefndum.

Ekki hægt að vísa ábyrgðinni á starfsmenn

Anna sagði að enn væri verið að ræða reikniforsendur. Hún sagði að það væri líka á forræði stjórnenda að ráðstafa þeim fjármunum sem úthlutað væri.

Stefán Bogi tók undir að ekki væri útlit fyrir að niðurskurðurinn yrði jafn mikill og fyrst var óttast. Málið þyrfti samt að ræða og ekki kæmi til greina að pólitískt kjörnir fulltrúar reyndu að varpa ábyrgðinni yfir á stjórnendur.

„Það var ekkert ákveðið á vinnufundinum enda ekkert umboð þar til staðar. Það eina sem liggur fyrir er áætlunin frá fræðslunefndinni. Það eina sem við sem bæjarfulltrúar þurfum að bregðast við er það sem sannarlega var samþykkt í fræðslunefnd.

Mér finnst ekki rétt verklag að vísa ábyrgðinni á stjórnendur. Það eru forsendur á bakvið þessar tölur og liggur fyrir til hvers er ætlast. Það gengur ekki að birta tölurnar en ekki forsendurnar og benda á stjórnendurna.

Ef taka þarf erfiðar ákvarðanir þá þurfum við að ákveða hvaða þjónustu eigi að veita og hverja ekki. Til þess erum við kosin en vísum því ekki á starfsmenn sveitarfélagsins."

Stefán Bogi hafnaði því ennfremur að minnihlutinn væri að valda titringi í samfélaginu með gagnrýni sinni á tillögurnar. Fulltrúar meirihlutans hefðu verið að ræða málið „úti í bæ. Ég ætla ekki að taka á mig að vera hræra upp í einhverjum potti þegar umræðan er meðal annars komin inn í stofnanirnar."

Hækkanir kjarasamninga þyngja rekstur sveitarfélaga

Fyrir liggur hins vegar að fræðslumálin eru erfiður málaflokkur fyrir fjárhag sveitarfélagsins. Fyrir fundinum lá ábending frá fræðslunefnd þar sem fram kemur að ljóst sé að launaliður sviðsins fari talsvert fram úr áætlunum í kjölfar kjarasamninga.

Bæjarstjórnin samþykkti samhljóða hvatningu til nefndarinnar og fræðslustofnana um að haga rekstri stofnana á fræðslu sviði með þeim hætti að hækkanir kjarasamninga raski sem minnst heildarfjárútlátum til málaflokksins.

„Það er ljóst að við stöndum frammi fyrir nokkrum áskorunum í að láta peningana nægja. Ég held að það sé ljóst hjá mörgum sveitarfélögum að tekjuáætlanir standast ekki og kauphækkanir kjarasamninga eru ansi miklar þegar þarf að greiða þær,“ sagði Sigrún Blöndal.

Ég hélt að við værum komin út úr því að þurfa að hafa þetta miklar áhyggjur við gerð fjárhagsáætlunar en við erum enn að velta fyrir okkur hvernig við getum komið til móts við íbúana þannig þeir verði fyrir sem minnstum áhrifum. Við höfum knappan fárhag og þurfum að ræða hvað sé mikilvægast."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.