Brunavarnir á Austurlandi: Er alls staðar nægt vatn?

alelda bill a reydarfirdi1Mannvirkjastofnun gerir margvíslegar athugasemdir við aðbúnað Brunavarna á Austurlandi í nýrri skýrslu. Meðal annars er talið hæpið að nægt vatn sé til staðar í slökkvistarf í þremur austfirskum þéttbýlisstöðum.

Samkvæmt lögum skal Mannvirkjastofnun taka út hvernig slökkvilið vinnur í samræmi við lög, reglugerðir og eigin brunavarnaáætlanir. Slík úttekt var unnin á Brunavörnum á Austurlandi í vor.

Mannvirkjastofnun telur upplýsingar um vatn fyrir slökkvistarf og eftirlit með virkni brunahana á starfssvæðinu ekki í samræmi við lög. Þannig sé ekki alls staðar fyrir hendi nægt vatn eða þrýstingur en sveitarfélögum ber að sjá til þess að svo sé. Þessar athugasemdir snúa að Seyðisfirði, Borgarfirði og Djúpavogi.

Vita um flöskuhálsana

Í andsvari slökkviliðsstjóra segir að sérstaklega hafi verið hugað að því að nægt vatn sé til staðar fyrir stærstu hættustaðina á þessum stöðum.

Á Djúpavogi séu þekktir flöskuhálsar í vatnskerfinu. Slökkviliðið viti af þeim og sé með áætlanir. Á Seyðisfirði vantar tvo brunahana og á Borgarfirði er vatnsöflun talin nokkuð trygg en hana þurfi að æfa.

Gamall búnaður?

Athugasemdir eru gerðar við hlífðarbúnað, hann uppfylli ekki kröfur, búnaður sé kominn fram yfir áætlaðan endingartíma hafi ekki verið tekinn úr umferð og ekki sé til hlífðarbúnaður til að fást við hættuleg efni. Eins er gagnrýnt að ekki sé haldin skrá um slys eða óhöpp við reykköfun.

Í svarinu segir meðal annars að áhersla sé lögð á að reykkafarar yfirfari búnað sinn sjálfir og geri slökkviliðsstjóra viðvart ef einhverju sé ábótavant. Annars sé haldin skrá yfir búnað og aldur hans auk þess sem hann sé sjónskoðaður.

Ekki réttar upplýsingar hjá stofnuninni

Loftþjappa, sem notuð er við reykköfun á Egilstöðum, er sögð ónothæf. Tvær athugasemdir eru við hana í skýrslunni og segir slökkviliðsstjórinn að önnur þeirra hafi verið lagfærð áður en starfsmaður Mannvirkjastofnunarinnar skoðaði hana. Þar sé nú komin ný loftþjappa.

Mannvirkjastofnun gagnrýnir einnig að búnaður sem notaður sé til að bjarga fastklemmdu fólki hafi ekki verið yfirfarinn eins og krafist sé af framleiðanda.

Slökkvistjórinn svarar því að ekki sé til staðar fyrirtæki eða starfsmaður til að prófa vökvaknúinn búnað, sem notaður sé á Héraði, Borgarfirði og Djúpavogi. Þetta hafi starfsmanni Mannvirkjastofnunar átt að vera kunnugt. Á Seyðisfirði og Vopnafirði sé hins vegar nýr rafdrifinn búnaður.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.