Brunavarnir á Austurlandi: Brunavarnaáætlun enn ósamþykkt

aefing isavia web1Mannvirkjastofnun gerir athugasemd við að ekki liggi fyrir brunavarnaáætlun fyrir Brunavarnir á Austurlandi. Hún hefur verið í smíðum frá því að slökkviliðið var stofnað í byrjun árs 2007. Eldvarnaeftirliti er einnig talið ábótavant.

Samkvæmt lögum skal Mannvirkjastofnun taka út hvernig slökkvilið vinnur í samræmi við lög, reglugerðir og eigin brunavarnaáætlanir. Slík úttekt var unnin á Brunavörnum á Austurlandi í vor.

Í úttektinni er fundið að því að ekki sé til brunavarnaáætlun fyrir slökkviliðið. Hún þurfi að fá samþykkti stofnunarinnar og viðkomandi sveitarfélaga.

Enn athugasemdir við áætlunina

Í svari slökkviliðsstjóra kemur fram að við sameiningu slökkviliðanna í byrjun árs hafi verið hafist handa við gerð áætlunarinnar. Henni var skilað til stofnunarinnar tveimur árum síðar og athugasemdir verið sendar til baka tæpu ári síðar. Endurbætt áætlun hafi verið tilbúin síðla árs 2013 og send til Mannvirkjastofnunar.

Athugasemdir komu nokkrum mánuðum síðar þar sem stofnunin segist ekki geta samþykkt áætlunina. Þar segi að verulegra úrbóta sé þörf á kafla um sérstakar bruna- og mengunarhættur. Enn fremur telur stofnunin ekki sýnt fram á að skipulag slökkviliðsins eins og það birtist í áætluninni sé þannig að liði geti ráðið við þær hættur sem séu á starfssvæðinu.

Ekki er tekið fram í svarinu hver sé staðan á vinnu við áætlunina í dag.

Eldvarnaeftirliti verulega ábótavant

Eldvarnareftirliti er sagt „verulega ábótavant" og ekki eins og krafist sé í lögum. Engar skráningar séu til á eftirliti, kröfum um tíðni eftirlits í mannvirkjum sé ekki fylgt og aðeins lítill hluti mannvirkja skoðaður. Þá sé ekki til skrá yfir mannvirki og aðra staði þar sem eldsvoði geti valdið sérstakri hættu á manntjóni eða miklu tjóni á umhverfi eða öðrum verðmætum.

Ekki eru gerðar athugasemdir við þessa gagnrýni af hálfu slökkviliðsstjórans.

Að lokum er gagnrýnt að samningur Brunavarna á Austurlandi við Seyðisfjarðarkaupstað um samvinnu við brunavarnir hafi ekki verið sendir Mannvirkjastofnun. Í athugasemdum sínum segist slökkvistjórinn hafa sent hann með þeim en þær eru dagsettar 12. október síðastliðinn.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.