Brunavarnir á Austurlandi: Mönnun er ekki nægjanleg, menntun og þjálfun er ábótavant

bruni selskogur 0007 webGerðar eru margvíslegar athugasemdir við mönnun og menntun hjá Brunavörnum á Austurlandi í nýrri úttektarskýrslu Mannvirkjastofnunar. Slökkvistjórinn telur framsetningu stofnunarinnar á stöðunni í skýrslunni óheppilega.

Samkvæmt lögum skal Mannvirkjastofnun taka út hvernig slökkvilið vinnur í samræmi við lög, reglugerðir og eigin brunavarnaáætlanir. Slík úttekt var unnin á Brunavörnum á Austurlandi sem sveitarfélögin Fljótsdalshérað, Seyðisfjörður, Vopnafjörður, Fljótsdalur, Djúpivogur og Borgarfjörður standa að.

Úttektin var unnin í vor en barst sveitarstjórnarmönnum ekki fyrr en í lok september. Í skýrslunni, einkum niðurstöðukafla, eru gerðar fjölmargar athugasemdir við umgjörð slökkviliðanna. Sveitastjórnirnar hafa brugðist við með ýmsum hætti en bæjarráð Fljótsdalshérað kallaði fulltrúa úr stjórn Brunavarna og slökkviliðsstjóra á sinn fund. Í skýrslu slökkviliðsstjórans er svarað fjölda þeirra athugasemda sem fram koma í skýrslunni.

Lítur verr út en raunin er

Úttektin barst reyndar slökkviliðsstjóranum í byrjun júní og hafði hann þá fjögurra vikna andmælarétt. Hann fór hins vegar í sumarfrí skömmu síðar og á meðan rann andmælarétturinn út.

Í svari sínu viðurkennir Baldur Pálsson, slökkviliðsstjóri, að við lestur skýrslunnar sé eðlilegt að sú tilfinning komi upp að ástandinu sé „stórlega ábótavant svo ekki sé meira sagt." Fremst í henni er greinargerð þar sem talin eru upp þau atriði sem bæta þarf úr.

Á eftir fylgja nánari útskýringar og telur Baldur að þær sýni að ástandið sé ekki svart þótt ýmislegt megi betur fara. Þessa framsetningu, sem hann kallar „misræmi" telur hann „óheppilegt og beinlínis villandi."

Mannvirkjastofnun ekki sinnt sínu

Í skýrslunni er meðal annars bent á að mönnun, menntun og þjálfun slökkviliðanna sé ábótavant og hreinlega ekki í samræmi við lög. Reykkafarar hafi til dæmis ekki farið í læknisskoðun og þrekpróf eins og standi í lögum. Bent er á að slökkviliðsstjóri eigi að sjá um fræðslu slökkviliðsmanna og áætlun um grunnmenntun á árinu hafi ekki legið fyrir þegar úttektin var gerð.

Í svari slökkviliðsstjórans kemur fram að mönnun vanti fyrir sjö byggingar á svæðinu. Hann gagnrýnir hins vegar að þar sé stuðst við úrelt gögn auk þess sem Mannvirkjastofnun viðurkenni ekki varalið.

Hann svarar aðfinnslum stofnunarinnar um menntun slökkviliðsmanna einnig fullum hálsi. Slökkviliðsmennirnir eru sagðir hafa lokið fjarnámi Brunamálaskólans en eigi eftir verklegt próf. Mannvirkjastofnun haldi það en hafi ekki sinnt beiðnum um að koma með þau austur. Bréf þar um hafi verið sent fyrir síðustu áramót en engu skilað.

Fjarlægðir flækja málið

Því er líka svarað að flestir reykkafaranna hafi farið í læknisskoðun en á einum stað skilaði læknir seint af sér niðurstöðum. Bent er á að reykkafarar frá Borgarfirði þurfi þrjár ferðir í Egilsstaði til að ljúka skoðun sinni. Því fylgi mikill ferðakostnaður auk þess sem gjald Heilbrigðisstofnunar Austurlands fyrir læknisskoðanir hafi hækkað úr 24.250 krónum í 41.200 á þremur árum. Verkföll heilbrigðisstétta hafi einnig tafið fyrir skoðunum.

Þrekpróf hafa einnig gengið misjafnlega. Á Vopnafirði fékkst ekki aðili til að halda þrekpróf og slökkviliðsmenn þaðan fengust ekki til að fara annað í prófin. Á Djúpavogi gekk einnig illa að ljúka prófunum þar sem íþróttakennari sem ráðinn var í verkið gat illa sinnt því vegna annarra anna.

Heitið er úrbótum á 25 tíma æfingaskyldu reykkafara í ár en einhverjir kafarar náðu ekki tilskyldum tímafjölda í fyrra.

Mannvirkjastofnun bendir á að slökkviliðsstjóri uppfylli ekki hæfnisskilyrði. Í svari hans kemur fram að nauðsynleg gögn séu til og liggi á aðalskrifstofunni á Egilsstaðaflugvelli en hafi ekki verið send inn.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.