Útvarpsstjóri: Of mikið verið skorið niður í starfsemi RÚV á landsbyggðinni

magnus geir ruv okt15Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, telur að niðurskurður í starfsemi RÚV hafi bitnað of harkalega á starfsemi þess á landsbyggðinni á undanförnum árum. Mikil vinna hafi verið lögð í að snúa við rekstrinum undanfarið ár en um leið leitast við að verja dagskrárgerðina.

Bætt þjónusta við landsbyggðina er eitt af fimm áhersluatriðum sem komu út úr stefnumótun RÚV fyrir um ári.

„Að mínu mati var skorið of mikið niður á landsbyggðinni og fannst blasa við að við yrðum að gera betur þar," sagði Magnús Geir á opnum kynningarfundi RÚV á Egilsstöðum fyrir skemmstu.

Aukið framboð á innlendu gæðaefni var aðaláhersluatriðið úr út stefnumótuninni. Hlutfall innlends efnis hefur verið aukið á öllum miðlum RÚV, hlutfall menningarefnis aukið í sjónvarpi og dregið úr endurflutningi á Rás 1.

Magnús Geir segir að greitt aðgengi að bandarísku sjónvarpsefni hafi sannfært stjórnendur RÚV um að horfa annað. Í erlendu efni sé lögð áhersla á efni annars staðar frá, til að mynda frá Norðurlöndunum.

Aðgengi að efni á ensku ræður líka áherslu RÚV í bættri þjónustu við börn þar sem sérstök áhersla er lögð á aukið framboð íslensks efnis. RÚV hefur kynnt til leiks nýjan krakkavef og framundan er sjónvarpsfréttatími þar sem helstu fréttir dagsins verða túlkaðar þannig að börnin skilji. „Við lítum svo á að RÚV hafi skyldur við öll börn af íslenskum uppruna um allan heim."

Síðustu tvö áherslu atriðin snúast um að koma gömlu efni á stafrænt form til að gera það aðgengilegt og nýr vefur sem fengið hefur aukna aðsókn.

Sér til lands eftir hagræðingu

Magnús segir hafa verið unnið sleitulaust að því að hagræða í rekstri RÚV undnafarið ár. Vaxtagreiðslur hafi verið of stór hluti gjalda, stofnunin var yfirskuldsett og útvarpsgjald ekki dugað til lögbundinnar þjónustu.

Hann gagnrýndi reyndar að framlög til RÚV væru ákveðin á fjárlögum árlega en ekki tryggt nokkur ár fram í tímann. Slíkt græfi meðal annars undan ritstjórnarlegu sjálfstæði.

Hann sagði endurskipulagninguna hafa verið flókna og erfiða en nú væri farið að sjá til lands. Meðal annars hefur seldur byggingaréttur á lóð RÚV í Efstaleiti og hluti húsnæðisins verið leigður út. Í hagræðingu hefði verið að verja dagskrána og fólkið.

Hann sagði ríkisfjölmiðil hafa ríku hlutverki að gegna í samtímanum. „Þjóðin er að verða sundraðri í fjölmiðlaneyslu sinni. Því þurfum við að hafa þetta torg sem sameinar hana á stóru stundunum og segir sögur úr nærumhverfinu. RÚV á að vera sameinandi afl í sundurleitu þjóðfélagi."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.